Brautin – bindindisfélag ökumanna stóð fyrir fyrstu keppninni í Ökuleikni árið 1978. Síðan þa´ hefur Ökuleiknin skipað sér sess um allt land sem skemmtilegur og spennandi viðburður. Margt hefur breyst á þeim tíma sem Ökuleiknin hefur verið starfandi, þó markmiðin með henni séu alltaf þau sömu:
- Draga úr ölvunaraakstri og fækka ölvunarslysum
- Auka notkun bílbelta
- Draga úr hraða
- Opna augu almennings fyrir auknu umferðaröryggi
ÖKULEIKNI er skrásett vörumerki og er í eigu Brautarinna – bindindisfélags ökumanna. Merkið er skráð í flokk 41: Fræðsla, þjálfun og skemmtistarfsemi. Skráningarnúmer 577/19.12.1988. (Sjá vef Einkaleyfastofu). Engum er heimilt að nota vörumerkið nema með skriflegu leyfi Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna.
Fréttir af síðustu keppnum
Íslandsmeistarakeppni
Allt fram til ársins 2002 var Ökuleikni haldin um allt land. Farið var á 10-40 staði um land allt og forkeppnir haldnar, ásamt því að keppt var í hjólreiðakeppni, go-kart leikni o.fl. eftir atvikum. Sigurvegarar í kvennariðli og karlariðli unnu sér þá rétt til þátttöku í Íslandsmeistarakeppninni sem haldin var í Reykjavík í lok sumar. Framan af var nýr bíll í boði fyrir þann sem fór villulaust í gegnum brautina (viðkomandi þurfti þá líka að vera í eftstu 5 sætum keppninnar).
Frá 2003 hefur keppnin hins vegar verið haldin sem opin Íslandsmeistarakeppni, ýmist árlega eða á nokkurra ára fresti. Þá er öllum heimil þátttaka og keppt um Íslandsmeistaratitil karla og kvenna.
Ökuleiknin er mikilvægur hlekkur í baráttunni fyrir auknu umferðaröryggi þar sem hún leggur áherslu á hæfni ökumanna. Þrátt fyrir að um keppni sé að ræða skilar æfingin sér klárlega út í umferðina.
Páll H. Halldórsson, formaður Brautarinnar
Trukka- og rútuökuleikni
Ein helsta nýjung í Ökuleiknini er hin svokallaða Trukka- og rútuökuleikni. Keppnin er haldin í samstarfi við Öskju og Eimskip en einnig lána velviljuð fyrirtæki Benz bíla til þess að keppa á. Keppnin er að jafnaði vel sótt og myndast góð stemming á milli manna.
Ökuleikni framhaldsskólanna
Haustið 2005 var haldin Ökuleikni framhaldsskólanna. Verkefnið var tilraunarverkefni og var farið í þá skóla sem þess óskuðu á höfuðborgarsvæðinu, en auk þess var farið á Akureyri og Egilsstaði. Alls tóku 64 nemendur þátt. Eins og í venjulegri Ökuleikni var keppt í tveimur riðlum, karlariðli og kvennariðli. Tveir efstu úr hvorum riðli í hverjum skóla komast svo áfram í úrslitakeppni.
Fræðsla í vinnuskólum
Félagið fór í mörg ár umhverfis landið með fræðsluverkefni fyrir unglinga í vinnuskólum. Lögð var áhersla á unglingana sem byrjendur í umferðinni og hvað það skiptir miklu máli að akstur og áfengi mega aldrei fara saman. Notaðir vor Go-kart bílar við verkefnið og eins var Veltibíllinn með í för. Settur var upp leikþáttur þar sem unglingarnir fengu að heyra um afleiðingar ölvunaraksturs.

Unglingar að vinna verkefni í blíðskaparveðri framan við Verkmenntaskólann á Akureyri. Myndin er tekin sumarið 1999.