Guðmundur Karl

Ályktanir:

9. janúar 2006

Stjórn Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna hvetur framleiðendur og innflytjendur áfengis til þess að fara að íslenskum lögum og hætta auglýsingum á áfengum drykkjum. Þá er einnig átt við auglýsingar á vörumerkjum sem vísa til samsvarandi áfengra drykkja.
Vísindamenn við Connecticut háskóla í Bandaríkjunum hafa komist að þeirri niðurstöðu að slíkar auglýsingar auki neyslu ungs fólks á áfengi. Aukin neysla leiðir til fleiri vandamála tengdum áfengi t.d. ölvunaraksturs, áfengissýki o.fl. Er það von félagsins að samstaða náist um að slíkar auglýsingar skuli ekki birtast hér á landi

3. apríl 2006

Stjórn Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna lýsir áhyggjum yfir óskráðum vinnnuvélum í umferðinni. Í umferðinni er dag hvern ekið óskráðum og ótryggðum vinnuvélum sem geta valdið alvarlegum slysum og þannig óvíst að tjón fáist bætt. Félagið telur afar mikilvægt að þessi mál séu tekin til endurskoðunar.

Ökuleikni

Framhaldsskólar

Á síðasta ári var í fyrsta skipti haldin Ökuleikni framhaldsskólanna. Verkefnið var lengi í undirbúningi. Þar sem um tilraunarverkefni var að ræða var öllum framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu boðið að vera með auk skólanna á Akureyri og Egilsstöðum. Farið var í 11 skóla. Fyrst var haldin fræðsla inni í skólunum sem fjallaði um það að vera byrjandi í umferðinni. Síðan var haldin ökuleikni innan skólans. Keppni var haldin í samvinnu við Sjóvá, OgVodafone og Heklu. Einnig komu Gámaþjónustan og KSÍ að verkefninu.

Alls tóku 64 þátt í undankeppnum og 29 þeirra áunnu sér rétt til þáttöku í úrslitakeppni sem haldin var í Reykjavík þann 22. apríl. Þangað mættu 12 keppendur og kepptu í fyrstu Íslandsmeistarkeppninni í Ökuleikni framhaldsskólanna. Erla Steinþórsdóttir, Verkmenntaskólanum á Akureyri, varð Íslandsmeistari kvenna og Kristinn Arnar Svavarsson, Menntaskólanum í Reykjavík, varð Íslandsmeistari karla. Þau fengu bikar að launum auk trygginga í eitt ár frá Sjóvá strax. Þeir keppendur sem lentu í 2. og 3. sæti fengu farsíma í verðlaun.

Einnig kepptu keppendur í liðakeppni og þar lenti Menntaskólinn í Reykjavík í fyrsta sæti og fékk Skólafélagið 70.000 kr úttekt í Nýherja frá Sjóvá.

Galtalækur

Að venju var haldin ökuleikni um verslunarmannahelgina í Galtalæki. Einnig var haldin hjólreiðakeppni fyrir börnin. Veltibíllinn var líka á staðnum og go kart bílarnir sömuleiðis.

Veltibíllinn

Veltibíllinn var mikið notaður á síðasta ári eins og venjulega. Vorið er alltaf mikill annatími og eins haustið. Mikið var um að foreldrafélög fengju bílinn í heimsókn, og eins var nokkuð um að fyrirtæki fengju bílinn í heimsókn. Bíllinn var einnig notaður við fræðslu barna hjá ÍTR.

Þann 5. október 2005 var afhentur formlega nýr veltibíll, en sá gamli var orðinn 5 ára. Sem fyrr eru það Volkswagen verksmiðjurnar sem útvega VW Golf til nota í verkefnið. Við sama tækifæri var fyrsti íslenski Veltibíllinn gefinn á Samgönguminjasafnið á Skógum, enda um merkilegt umferðaröryggistæki að ræða. Haldinn var blaðamanna­fundur og var rauði veltibíllinn sem verið var að skipta út látinn falla úr krana til þess að minna á afleiðingar aftanákeyrslna. Margt var um manninn og vakti fundurinn mikla athygli

Einnig var þann 5. október afhentur nýr VW Transporter í staðinn fyrir þann gamla sem kominn var til ára sinna. Bíllinn er aðallega notaður til þess að draga Veltibílinn, en einnig talsvert í Ökuleikninni.

Á síðasta ári var einnig opnuð upplýsingasíða fyrir Veltibílinn, www.veltibillinn.is.

VVV 2005

Félagið var þátttakandi í Vímuvarnavikunni 2005. Vímuvarnavikan var skipulögð af Samstarfsráði um forvarnir, en félagið er aðili að því.

Umferðarráð

Félagið á fulltrúa í Umferðarráði. Fulltrúi félagsins er Guðmundur Karl Einarsson og varamaður hans er Einar Guðmundsson

Happdrætti

Félagið sendi í maí 2005 út Lukkuseðla og var dregið þann 6. júlí. Vinningar voru úttektir í Sjónvarpsmiðstöðinni. Happdrættið er mikilvæg tekjulind fyrir félagið og hefur skilað ágætis hagnaði undanfarin ár.

Reiðhjólafræðsla

Líkt og áður heimsótti félagið krakka í frístundaklúbbum ÍTR. Krakkarnir komu hjólandi ýmist í Nauthólsvík eða á Árbæjarsafnið. Þar var rætt við þau um reiðhjólið og búnað þess auk þess sem helstu reiðhjólareglur voru ítrekaðar. Búið var að setja upp þrautir sem krakkarnir fengu að spreyta sig á. Þá var Veltibíllinn með í för og fengu krakkarnir að prófa hann.

Eins og kynnt var á síðasta aðalfundi gerði félagið könnun á búnaði reiðhjóla sem voru til sölu í verlsunum. Útkoman var ekki góð, en 47% þeirra hjóla sem voru skoðuð reyndust ólögleg. Félagið fylgdi könnuninni eftir bæði í fjölmiðlum og með samskiptum við innflytjendur. Er það von félagsins að árangur náist í þessum efnum.

Annað

Árið 2005 var ár breytinga hjá félaginu. Á síðasta aðalfundi var samþykkt að breyta nafni félagsins í Brautin – bindindisfélag ökumanna. Í kjölfarið var einnig hannað nýtt merki félagsins. Einar Guðmundsson lét af störfum framkvæmdastjóra eftir áralangt farsælt starf og við tók Guðmundur Karl Einarsson. Skrifstofa félagsins hafði verið í húsnæði Sjóvá en við þessar breytingar var skrifstofa félagsins færð í núverandi húsnæði að Brautarholti 4a.

Heimasíða félagins, www.brautin.is, fékk andlitslyftingu nýlega og hefur mikið verið notuð til kynningar á félaginu.

Guðmundur Karl Einarsson

16. maí 2006 04:53