Íslandsmeistarakeppnin í Ökuleikni var haldin í dag við Bílaumboðið Öskju á Krókhálsi, þar sem keppendur tóku þátt í blíðskaparveðri. Nokkrir fyrrum Íslandsmeistarar tóku þátt og ljóst var frá upphafi að þeir settu línurnar fyrir alla hina. Brautirnar tvær voru nokkuð krefjandi en með útsjónarsemi mátti aka þær með talsvert meiri hraða en oft tíðkast í keppni sem þessari. Eknar voru tvær brautir, önnur á Mercedes-Benz GLE og hin á KIA EV3.

Úrslit voru á þann veg, að Gunnar Örn Angantýrsson er Íslandsmeistari karla í Ökuleikni og bróðir hans Jón Örn Angantýrsson endaði í öðru sæti, en báðir hafa þeir unnið þennan titil tvisvar sinnum áður. Í þriðja sæti var Hinrik Þór Harðarson.

Í kvennaflokki var spennan ekki síðri, en Agnes Lóa Gunnarsdóttir er Íslandsmeistari kvenna í Ökuleikni, en hún er dóttir Gunnars Arnars. Er þetta í fyrsta sinn sem feðgin ná að verða Íslandsmeistarar á sama tíma í Ökuleikni. Í öðru sæti var Eva Hrund Willatzen og Hanna Rún Ragnarsdóttir varð í þriðja sæti. Hanna er þó einna þekktust sem aðstoðarökumaður í ralli.

Guðmundur Karl Einarsson

20. september 2025 17:02