Við félagsmenn í Brautinni – bindindisfélagi ökumanna syrgjum félaga sem fallinn er frá. Brynjar M Valdimarsson var klárlega einn af þeim öflugu félagsmönnum sem ruddu brautina, sat í stjórn félagsins 1981-2005 og varð forseti þess 1983-1995. Löngu fyrir þann tíma starfaði hann að ýmsum verkefnum félagsins og var t.d. alltaf tilbúinn til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í reiðhjólakeppnum sem félagið stóð fyrir.

Ósjaldan var bílskúrinn hjá Brynjari stútfullur af dóti fyrir Ökuleiknina auk þess sem Brynjar sjálfur fór út um víðan völl til að halda keppnir. Þau sumur sást kappinn ekki mikið í höfuðborginni. Ökumenn nutu því lengi reynslu, þekkingar og krafta Brynjars við undirbúning og framkvæmd Ökuleikninnar, kennarinn sjálfur kunni sitt fag.
Allir þekkja Veltibílinn og við getum þakkað Brynjari fyrir sinn þátt í upphafi er fyrsti bíllinn var smíðaður árið 1995. Þar kom góð kunnátta hans og útjónarsemi að góðum notum við hönnun og smíði búnaðarins. Stoltir mega aðstandendur Brynjars vera um ókomin ár vegna hans aðkoma í þessu forvarnaverkefni sem hefur m.a. stuðlað að fækkun slysa og jafnvel bjargað mannslífum.

Alltaf var auðvelt að leita til Brynjars og ósjaldan var öll hans fjölskylda komin til að vinna fyrir félagið og kunnum við í stjórn félagsins þeim öllum bestu þakkir fyrir. Sérstaklega minnumst við með hlýju ánægjulegra verslunarmannahelga í Galtalækjarskógi þegar bindindismótin voru upp á sitt besta.

Félagið minnist Brynjars með virðingu og vinsemd og er þakklátt fyrir hans miklu og góðu störf fyrir félagið. Fjölskyldunni sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur, foringi er fallinn.

f.h. Brautarinnar
Páll H Halldórsson
Formaður

Svipmyndir frá starfi Brynjars

Páll H. Halldórsson

23. ágúst 2023 07:30