Eins og greint hefur verið frá áður stendur mikið til á þessu ári. Nú eru komin 25 ár síðan veltibílskerran var smíðuð og komið að endurnýjun. Sömuleiðis er komið að endurnýjun á VW Transporter dráttarbílnum og von er á nýjum VW Golf frá Heklu til þess að setja á bílinn. Því var ákveðið að slá þessu öllu saman í eitt verkefni. Félagið bíður afhendingar á VW Crafter en á hann verður sett vagga fyrir nýjan Veltibíl. Þannig verður aðgengi og öll vinna við bílinn mun auðveldari auk þess sem auðveldara verður að ferðast með bílinn út fyrir höfuðborgarsvæðið. 

Félagið sjálft mun fjármagna kaup á VW Crafter bifreiðinni en þessar vikurnar eru viðræður í gangi við öflug fyrirtæki að styðja við kostnað vegna breytinganna sem þarf að gera, þ.e. smíði á vöggu ásamt stigbrettum, lengingu á bílnum og fleira. 

Það var því mikið gleðiefni þegar þær fréttir bárust að tvö öflug fyrirtæki, Góa og KFC, ætluðu að styðja við verkefnið með myndarlegum hætti. Fyrir það er Brautin gríðarlega þakklát. Áfram er unnið að því að fá fleiri fyrirtæki til samstarfs en markmiðið er að nýr veltibíll verði tekinn í notkun fyrir vorvertíðina 2020.

Guðmundur Karl Einarsson

15. janúar 2020 22:22