Það var árið 1995 sem Brautin (þá BFÖ) og Umferðarráð tóku höndum saman um að láta smíða Veltibíl. Hekla og Volkswagen komu að verkefninu og var bíllinn smíðaður hér á landi. Síðar komu Sjóvá-Almennar einnig inn sem þriðjungs eigandi í bílnum. Skipt var um bíl á kerrunni árin 2000, 2005, 2010 og 2015. Notkunin hefur verið mikil og núverandi VW Golf hefur farið 42.000 veltur með 64.000 farþega sem vonandi eru reynslunni ríkari. 

Nú er svo komið að kerran er komin til ára sinna og því nauðsynlegt að endurnýja. Tekin hefur verið ákvörðun um endurnýja hvoru tveggja bíl félagsins og Veltibílinn í einu og slá því saman í einn bíl. Keyptur verður VW Crafter og nýr Volkswagen settur aftan á hann. Með þessu næst fram hagræðing auk þess sem öll vinna við bílinn verður auðveldari. Lagt er upp með að vígja nýjan Veltibíl áður en vorvertíðin hefst á sumardaginn fyrsta. 

Félagið sjálft fjármagnar nýjan bíl en þessar vikurnar leitar það stuðnings frá velviljuðum fyrirtækjum til þess að fjármagna þær breytingar sem þarf að gera til þess að koma veltibúnaðinum fyrir á nýja bílnum. Hér fyrir neðan er skissa af nýjum bíl.

 

Guðmundur Karl Einarsson

20. desember 2019 14:02