KertasníkirKertasníkir elskar ljós. Hann varð því mjög glaður þegar hann kom í bæinn og sá öll götuljósin og ljósin á bílunum. Hann ók um Árbæinn í Reykjavík á vélsleðanum sínum og tók eftir því að flestir bílarnir voru með rauð jólaljós á afturendanum. Því fannst honum skrítið þegar hann sá einn sem ekki var með nein jólaljós að aftan. Hann snaraði sér því af vélsleðanum og bankaði á bílrúðuna hjá ökumanninum og spurði hverju sætti.

Ökumaðurinn kom af fjöllum og vissi ekki að afturljósin vantaði. „Ég er sko nýbúinn að kaupa þennan bíl og hélt að dagljósin myndu kvikna á honum þegar ég setti hann í gang. Svo sneri hann ljósatakkanum og bað Kertasníki að segja sér hvort nú væru rauð ljós logandi aftan á bílnum. „Já nú eru jólaljós aftan á þínum bíl eins og hinna bílanna“ sagði Kertasníkir. „Eins gott að passa vel upp á þetta og að skoða reglulega hvort öll ljós séu í lagi“ sagði ökumaðurinn. „Takk fyrir að benda mér á þetta og ég skal muna framvegis að kveikja öll ljós“ sagði ökumaðurinn.

Að því búnu kvaddi hann Kertasníki sem settist glaður á vélsleðann sinn og var ánægður með að hafa gert gagn í umferðinni. Þá var komið að því að kíkja á góðu börnin og gauka einhveru í skóinn þeirra. Það eru jú að koma jól.

Guðmundur Karl Einarsson

24. desember 2018 07:00