KetkrókurKetkrókur var kominn í bæinn á Akureyri á gamla vélsleðanum sínum og var að aka eftir Glerárgötunni þegar vélsleðinn fór eitthvað að hiksta. Hann áttaði sig ekkert á því að meðan hann fór löturhægt eftir Glerárgötunni ók hann í svigi ýmist á hægri eða vinstri akrein öðrum ökumönnum til mikillar gremju.

Að lokum gafst vélsleðinn upp og stoppaði. Sá sem á eftir honum ók stöðvaði fyrir aftan hann, setti neyðarljósin á og vippaði sér út úr bílnum og gekk að Ketkróki þar sem hann sat enn á sleðanum, klórandi sér í höfðinu og reyndi að gangsetja sleðann. Ökumaðurinn sá strax að þarna var sannkallaður jólasveinn á ferð og spurði varlega hvort Ketkrókur hefði eitthvað kynnt sér hvernig ætti að aka innan bæjarmarkanna. Ekki hafði Ketkrókur gert það en þáði góð ráð frá þessum vinsamlega ökumanni.
„Í fyrsta lagi á maður að halda sér á hægri akrein eins og kostur er og ekki spurning að halda sér hægra megin þegar þú ferð eins hægt og þú gerðir“ sagði hann.

„Í öðru lagi þá eigum við að láta aðra vita með stefnuljósum tímanlega áður en við skiptum um akrein og verðum um leið að skoða vel hvort einhver er á ferð á hinni akreininni. Ekki er ætlast til að við skiptum um akreinar eins og við værum í svigi á skíðum. Ef við förum eftir þessum reglum þá völdum við minnstri hættu þegar við skiptum um akrein“ sagði bílstjórinn að lokum.

Ketkrókur þakkaði innilega fyrir leiðsögnina en spurði jafnframt hvernig hann gæti komið sleðanum aftur í gang. Ökumaðurinn tók fljótlega eftir því að ástæða stöðvunarinnar var að bensíntankurinn var tómur. Svo vildi til að stutt var í næstu bensínstöð á næsta götuhorni og aðstoðaði ökumaðurinn Ketkrók við að sækja bensín og koma sleðanum í gang. „Heldur þú að þú munir það sem ég sagði þér áðan um akreinaskipti“ spurði ökumaðurinn Ketkrók. „ Já ég held það“ sagði Ketkrókur og svo endurtók hann reglurnar og greinilegt að hann hafði lært sína lexíu.

Að því búnu setti hann vélsleðann í gang, kvaddi ökumannin og hóf að leita að húsum þar sem þægu börnin búa til að gefa þeim eitthvað gott í skóinn.

Guðmundur Karl Einarsson

23. desember 2018 07:00