GluggagægirGluggagægir hafði yndi af að kíkja á glugga. Og skipti ekki máli hvort þeir væru í búðum eða bílum. Hann var búinn að vera að dreifa gjöfum í skó þægu krakkana langt fram eftir nóttu og það hafði snjóað svolítið og víða voru rúður hélaðar og bílarnir sem stóðu framan við húsin voru þaktir snjó og klaka.

Skyndilega sér hann að einn bíllinn fer af stað og ekur ekki nema nokkra metra þegar hann rekst utan í ljósastaur. Gluggagægir hljóp að bílnum og spyr bílsjórann hvort allt sé í lagi? „Já ég er í lagi en ég skemmdi bílinn minn“ sagði bílstjórinn. „Ég held ég viti af hverju“ sagði Gluggagægir. „Ég get aldrei kíkt á glugga ef snjór eða héla er á þeim. Þú gleymdir að hreinsa gluggana hjá þér og sást ekki hvað var fyrir framan þig“ hélt Gluggagægir áfram. „Já en það var svo kalt og ég hafði ekki neina vettlinga og vonaði að þurrkurnar myndu duga“ sagði bílstjórinn. „Það er óskynsamlegt. Ég held að þú verðir að hreinsa vel alla gluggana áður en þú ferð af stað – það myndi ég gera ef ég kynni að stýra svona bíl“ sagði Gluggagægir. „Þá er miklu betra að gægjast út um gluggana“ sagði hann að lokum. „Rétt hjá þér, ég lofa að muna þetta framvegis“ sagði bílstjórinn.

Að því loknu hvaddi Gluggagægir og hélt áfram að næstu húsum og vonaði að hann myndi ekki sjá fleiri aulabílstjóra sem nenntu ekki hreinsa gluggana í bílunum sínum.

Guðmundur Karl Einarsson

21. desember 2018 07:00