BjúgnakrækirBjúgnakrækir hafði verið að fara milli húsa alla nóttina og setja gjafir í skóna hjá þægu börnunum. Þegar hann kom að síðasta húsinu var að koma morgunn. Hann setti gjafir í skó barnanna og þegar hann var að fara frá húsinu heyrði hann skrítið hljóð. Það söng í einhverju, aftur og aftur. Hann gekk fyrir húshornið og sá að það var bíll að reyna að fara af stað en virtist ekkert ganga og hávaðinn kom frá dekkjunum.

Bjúgnakrækir gekk að bílnum og spurði ökumanninn hvort hann gæti hjálpað honum. „Geturðu ýtt á bílinn, hann spólar í snjónum“. „Ég skal gera það“ sagði Bjúgnakrækir en ekkert gekk. Bjúgnakrækir skoðaði dekkin og þegar hann snerti þau fann hann eitthvert klístur á þeim. Svipað og hann setti undir skíðin sín uppi í fjalli þegar hann vildi skíða hraðar. „Heyrðu maður“ sagði Bjúgnakrækir. „Það er ekki skrítið að þú komist ekkert áfram, það er skíðaáburður á dekkinu þínu. Þú verður að þrífa hann af fyrst.“ Maðurinn varð hálf skömmustulegur og gekk inn í húsið og sótti brúsa og á honum stóð „TJÖRUHREINSIR“.

Hann sprautaði úr honum á dekkin og reyndi aftur að fara af stað. Og viti menn; bíllinn komst auðveldlega af stað. Um leið kallaði bílstjórinn út um gluggann: „Takk fyrir Bjúgnakrækir, ég hafði steingleymt að hreinsa tjöruna af dekkjunum. En framvegis skal ég muna eftir að þrífa dekkin reglulega. Það borgar sig. Mætti bjóða þér nokkur hrossabjúgu fyrir hjálpina?“ sagði bílstjórinn. „Já takk“ sagði Bjúgnakrækir og gladdist mjög yfir gjöfinni. Nú var hann glaður.

Guðmundur Karl Einarsson

20. desember 2018 07:00