SkyrgámurSkyrgámur er mjög forvitinn og hefur það stundum orðið honum að falli. Svo var einnig þennan morgun þegar hann sá bíl koma akandi með blikkandi gul jólaljós bara öðru megin á bílnum. Hann varð forvitinn og hjóp að bílnum en hrasaði og var nærri lentur undir honum.

Bílstjórinn sá í tæka tíð hvað var að gerast og náði að stöðva bílinn. Hann hljóp út úr bílnum til að kanna hvort ekki væri allt í lagi með Skyrgám. En Skyrgámur var bara óðamála og vildi vita af hverju gulu jólaljósin á bílnum blikkuðu. Hann spurði hvort þau væru eitthvað biluð. „Nei“ sagði ökumaðurinn og skýrði út fyrir Skyrgámi að þetta væru svokölluð stefnuljós og hann hefði sérstakan takka inni í bílnum til að kveikja á þeim þegar hann væri að beygja. Það væri skylda að hafa þessi ljós. Með þeim gæfi hann til kynna að hann ætlaði að beygja. Því miður væru sumir bílstjórar sem ekki gerðu það.

Skyrgámur var þess fullviss að þeir sem ekki gæfu stefnuljós væru bara ekki nógu klárir að keyra fyrst þeir gætu ekki fylgt svo einföldum reglum.

Guðmundur Karl Einarsson

19. desember 2018 07:00