Hurðaskellir

Hurðaskellir var kominn í bæinn og var strax farinn að leita eftir húsi með ólæstum hurðum til að skemmta sér við að skella þeim. Að lokum kom hann að húsi með ólæstum hurðum og beið ekki boðanna og fór að skella hurðum.

Ekki leið á löngu þar til nokkrir ungir menn komu slagandi fram og spurðu hvað gengi á. „Nú ég er að æfa mig að skella hurðum – ég er jú Hurðaskellir“. „Æ hættu nú þessu og komdu frekar með okkur í smá bíltúr til að sækja dóp.“ Ekki leist Hurðaskelli á það enda hafði hann heyrt um síðustu jól að bannað væri að neyta slíks. Og ef það væri bannað að neyta þess, hlyti líka að vera bannað að neyta þess og keyra.

Hvað gat hann gert? Jú hann gerði það sem hann kunni best. Hann skellti hurðinni svo fast aftur að hún skekktist og mennirnir komust ekki út um hana. Hurðaskellir kallaði svo á hjálp og nágranni heyrði hrópið og kallaði á lögregluna. Þegar hún kom þá sagði hún Hurðaskelli að hann hefði gert alveg rétt. Það væri bannað að neyta fíkniefna og líka bannað að keyra eftir að hafa neytt þeirra. Hann hefði því forðað þeim frá því að keyra í þessu ástandi. Hættan væri sú að þeir sem keyra í þessu ástandi keyra svo illa og miklu meiri líkur væru á að þeir færu sér að voða og slösuðu aðra. Oft lentu þeir í að keyra á aðra.

Að launum fékk Hurðaskellir að skella nokkrum sinum hurðunum á lögreglubílnum og það þótti honum mjög skemmtilegt. Að lokum tók Hurðaskellir pokann sinn og fór að leita að þægu börnunum til að gauka einhverju skemmtilegu í skóinn þeirra.

Guðmundur Karl Einarsson

18. desember 2018 07:00