Síðustu daga skólaársins vinna nemendur 10. bekkjar Vogaskóla lokaverkefni sem þeir kynna svo fyrir samnemendum, kennurum og foreldrum sínum. Lokaverkefni hópsins ,,SPENNT“, þeirra Gígju Karitasar Thorarensen, Kristínar Lovísu Andradóttur og Svölu Lindar Örlygsdóttur fjallaði um nauðsyn öryggisbelta. Þær völdu þetta mikilvæga málefni í ljósi þess að nemendur í 10. bekk eru oftar en ekki farnir að huga að ökunámi á þessum aldri og vildu þær vekja ungmenni til umhugsunar um umferðaröryggi.

Hópurinn hannaði hettupeysur og lét framleiða og seldi til að fjármagna komu veltibílsins í skólann en veltibíllinn er í eigu Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna og Ökuskóla 3. Markmiðið með veltibílnum er að leyfa notendum að finna, á áþreifanlegan hátt, hversu mikilvægt er að nota bílbelti, hvort sem það er í framsæti eða aftursæti.

Hópurinn vann verkáætlun, aflaði sér upplýsinga m.a. hjá Samgöngustofu, gaf út bækling og setti upp kynningarbás í skólanum þar sem gestir og gangandi gátu fræðst um mikilvægi bílbeltanotkunar og athugað hversu stuttan tíma það raunverulega tekur að spenna á sig bílbelti. Það var hann Siggi sem sló metið í Vogaskóla og var aðeins 0,82 sekúndur að spenna sig í belti í sæti sem hópurinn fékk lánað frá Hópbílum hf. Staðreyndin er nefnilega sú að það tekur flesta aðeins nokkrar sekúndur að spenna beltið og þeim sekúndum er vel varið þegar þær geta bjargað lífi þínu.

Hópurinn SPENNT: Kristín Lovísa Andradóttir, Svala Lind Örlygsdóttir og Gígja Karitas Thorarensen ,,spenntar“ að kynna lokaverkefni sitt.

Kynningarbásinn um nauðsyn bílbelta. Hér má m.a. sjá fræðsluefni, hettupeysuna og tilraunasætið frá Hópbílum.

Páll H. Halldórsson, starfsmaður Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna, koma með bílinn á staðinn og sá til þess að allt færi rétt fram þegar nemendur fóru veltu í bílnum.

Hildur Guðjónsdóttir, sérfræðingur í öryggis- og fræðslumálum hjá Samgöngustofu, var hópnum innan handar varðandi ýmis gögn, fræðsluefni og forvarnir.

Fréttin er skrifuð og fengin lánuð frá https://www.samgongustofa.is/um/frettir/umferdarfrettir/naudsyn-bilbelta

Guðmundur Karl Einarsson

6. júní 2018 22:14