Dyggur og atorkusamur heiðursfélagi í Brautinni – bindindisfélagi ökumanna er fallinn frá. Kristinn tók virkan þátt í starfsemi Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna (BFÖ) í mörg ár. Hann sat í stjórn hennar allt frá 1977 og hafði þá verið varamaður um skeið. Hann var einnig formaður Reykjavíkurdeildar félagsins í mörg ár.

Kristinn sat í yfir 20 ár í stjórn félagsins allt til ársins 1999 og er það samdóma álit hans samstjórnarmanna að gott var að vinna með honum. Öll þau verkefni sem hann tók að sér leysti hann með sóma og veitti hann oft á tíðum félaginu fjárhagslegan stuðning með ýmsum hætti. Kristinn var víðsýnn og fljótur að koma auga á hvaða þætti mætti bæta og frjó hugsun hans leiddi oft á tíðum til skemmtilegra og góðra verkefna innan félagsins og ekki lá hann á liði sínu til að fá þeim framgengt.

Það er því með söknuði og þakklæti sem félagsmenn og stjórnarmenn í Brautinni – bindindisfélagi ökumanna kveðja góðan vin í dag. Takk fyrir þitt góða framlag til félagsins.

Fyrir hönd stjórnar Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna,
Einar Guðmundsson.

Einar Guðmundsson

16. október 2017 09:28