Ljósmynd: althingi.is. Bragi Þór Jósefsson

Ljósmynd: althingi.is. Bragi Þór Jósefsson

Samstarfsráð félagasamtaka í forvörnum, sem Brautin – bindindisfélag ökumanna er aðili að, hefur nú sent alþingismönnum áskorun vegna frumvarps um að afleggja einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis og gefa hana frjálsa.

Áskorun til alþingismanna vegna frumvarps um að afleggja einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis og gefa smásölu áfengis frjálsa að ákveðnu marki.

[1]

Endurflutt er á Alþingi þingmannafrumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald á áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis) – 144. löggjafarþing 2014–2015. Þingskjal 17 – 17. mál. Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi Áfengis-og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis verði að ákveðnu marki gefin frjáls.

Hér er um að ræða tillögu sem varðar mikla samfélagslega hagsmuni. Við förum þess á leit að fulltrúar okkar á Alþingi tryggi henni vandaða málsmeðferð sem byggir á langtímastefnumörkun í forvörnum og lýðheilsu.

Við förum þess á leit að fulltrúar okkar á Alþingi kynni sér af kostgæfni möguleg áhrif frumvarpsins á lýðheilsu og þjóðarhag og byggi afgreiðslu þess á rannsóknum, ráðgjöf og upplýsingum sérfræðinga í lýðheilsumálum, áfengis-og vímuefnamálum og, ekki síst, þeirra sem sinna málefnum ungmenna.

Áfengisneysla er meðal sterkustu áhættuþátta lýðheilsu, samanber mat Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.[2] Kostnaður samfélagsins vegna neyslu áfengis birtist víða, m.a. í heilbrigðiskerfinu, löggæslu- og dómskerfinu, tryggingakerfinu og atvinnulífinu svo dæmi séu nefnd. Að ógleymdum áhrifum á einstaklinga, fjölskyldur og nærsamfélag.

Í nýlegri bók sem leiðandi vísindamenn á sviði áfengis- og vímuefnamála tóku saman um fyrirliggjandi niðurstöður rannsókna í áfengis- og vímuefnamálum kemur fram að aukið aðgengi/framboð á áfengi leiðir til aukinnar neyslu.[3] Af þessu er ljóst að áfengi er engin venjuleg söluvara sem hægt er að setja eingöngu í afmarkað markaðs- og viðskiptasamhengi.

Við vekjum athygli á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands segir að bætt lýðheilsa og forvarnastarf verði meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar. Í samræmi við það var sett á fót ráðherranefnd um lýðheilsumál undir hatti forsætisráðherra. Samhliða henni var einnig sett á fót sérstök ráðgefandi Lýðheilsunefnd undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra sem hafði það meginhlutverk að vinna drög að heildstæðri stefnumótun og aðgerðaráætlun sem hefur það að markmiði að efla og bæta lýðheilsu á öllum aldursskeiðum en með sérstakri áherslu á börn og ungmenni. Nefndin skilaði heilbrigðisráðherra tillögum sínum í árslok 2015.

Stjórnvöld, sveitarfélög og fjölmörg almannasamtök hafa með stefnumörkun og beinum aðgerðum unnið markvisst að því að draga úr áfengisneyslu íslenskra ungmenna með góðum árangri. Þeim árangri má ekki stofna í hættu. Við hvetjum því alþingismenn til þess að fella frumvarpið með vísan í stefnyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um bætta lýðheilsu og forvarnastarf meðal barna og ungmenna.

Þjóðkirkjan, Heimili og skóli, Krabbameinsfélag Reykjavíkur, UMFÍ, Skátarnir, Kvenfélagasamband Íslands, Samhjálp, Brautin, IOGT á Íslandi, Blátt áfram, Lions á Íslandi, Samfés, FÍÆT, Barnahreyfing IOGT, Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Vímulaus æska – Foreldrahús, Olnbogabörn, HIV á Íslandi, Vernd fangahjálp, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, Núll prósent, SSB og FRÆ.

Samstarfsráð félagasamtaka í forvörnum, er samstarfsvettvangur 24 félagasamtaka sem vinna að áfengis-, tóbaks- og vímuefnaforvörnum á vettvangi mannræktar, velferðar, félagsmála, samfélagsþróunar, uppeldis- og skólamála, íþróttamála og tómstundastarfs.
Samstarfið byggist á virðingu fyrir fjölbreytni, ólíkri aðkomu samtaka í forvörnum og mismunandi áherslum.

[1] http://www.althingi.is/altext/143/s/0186.html[2] http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs349/en/[3] http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10424/Afengi_engin_venjuleg.pdf

Guðmundur Karl Einarsson

8. febrúar 2016 08:26