Hjördís og Sighvatur Íslandsmeistarar

Hjördís og Sighvatur Íslandsmeistarar

Í dag, sunnudaginn 20. septmember, fór fram seinni hluti Íslandsmeistarakeppninnar í Ökuleikni. Í gær var keppt á trukkum og rútum en í dag var keppt á fólksbílum. Ekið var í gegnum brautirnar á VW frá Heklu.

Nokkrir fyrrum Íslandsmeistarar voru meðal keppenda og því hart barist. Munur á efstu mönnum var lítill og því ekki mikið svigrúm til mistaka.

Íslandsmeistari kvenna varð Hjördís Heiða Ásmundsdóttir með 634 sekúndur. Hjördís var að taka þátt í Ökuleikni í fyrsta skipti og því er þetta gríðarlega góður árangur. Aðeins sjö sekúndum á eftir Hjördísi varð Guðný Guðmundsdóttir, Íslandsmeistari 2014, með 641 sekúndu. Munaði mestu um að Hjördís ók talvert hraðar en Hjördís sem þó gerði fleiri villur en Guðný. Í þriðja sæti varð svo María Ásmundsdóttir Shanko, systir Hjördísar, með 694 sekúndur.

Íslandsmeistari karla í sjöunda skipti varð Sighvatur Jónsson með 397 sekúndur. Talsverðu munaði að Sighvati og Gunnari Erni Angantýssyni sem lenti í öðru sæti með 430 sekúndur. Gunnar Örn hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari og eins bróðir hans, Jón Örn, sem lenti í þriðja sæti með 446 sekúndur.

Í Ökuleikni keppa aka keppendur í gegnum fjórar brautir. Tíminn er tekinn og villur taldar. Fyrir hverja villu sem keppendur gera bætast 10 sekúndur við tímann. Fyrir keppni svara þátttakendur spurningum og fyrir hverja villu þar bætast 5 sekúndur við tímann. Markmiðið með keppninni er að vekja athygli á hæfni ökumanna og mikilvægi þess að þekkja bílinn sem ekið er á.

Guðný hefur tekið þátt í ökuleikni 30 sinnum

Guðný hefur tekið þátt í ökuleikni 30 sinnum

Gaman er að segja frá því að Guðný Guðmundsdóttir var að taka þátt í Ökuleikni í 30. skipti. Hún hefur orðið Íslandsmeistari þrisvar og lent nokkrum sinnum í öðru sæti. Við þökkum Guðnýju auðvitað kærlega fyrir tryggðina í gegnum árin.

Brautin  – bindindisfélag ökumanna stóð fyrst fyrir keppni í Ökuleikni árið 1978 og hafa því fjölmargir hlotið Íslandsmeistaratitil. Keppnin í dag var haldin í samstarfi við Heklu sem gaf verðlaun og lánaði bíla, Ölgerðina sem annaðist næringu þátttakenda, N1 sem gaf verðlaun í formi eldsneytisinneignar og Ökukennarafélag Íslands sem annaðist spurningagerð og lánaði aðstöðu til keppninnar. Fá allir þessir aðilar bestu þakkir fyrir veitta aðstoð.

Úrslitin voru þessi:

Kvennariðill

  1. Hjördís Heiða Ásmundsdóttir, 634 sekúndur
  2. Guðný Guðmundsdóttir, 641 sekúnda
  3. María Ásmundsdóttir Shanko, 694 sekúndur

Karlariðill

  1. Sighvatur Jónsson, 397 sekúndur
  2. Gunnar Örn Angantýsson, 430 sekúndur
  3. Jón Örn Angantýsson, 446 sekúndur

Íslandsmeistarakeppni í Ökuleikni 2015

Myndir frá keppninni

Guðmundur Karl Einarsson

20. september 2015 16:54