

Friðbert Friðbertsson afhendir Einari Guðmundssyni, formanni Brautarinnar, og Jóni Hauki Edwald, framkvæmdastjóra Ökuskóla 3, nýjan Veltibíl. Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu stýrði afhendingunni.
Hekla endurnýjaði samstarfssamning við Brautina síðastliðið sumar og í kjölfarið var sendibíll félagsins endurnýjaður og við það tækifæri nefndi forstjóri Heklu að þeir vildu fara að endurnýja veltibílinn.
Það gerðist svo núna á vordögum að nýr Golf kom frá Heklu og sá Páll H Halldórsson um að láta skipta á bílum á veltibílsgrindinni og fór sú breyting fram í húsnæði Öskju.
Formleg afhending veltibílsins fór svo fram þann 8. maí s.l. og voru það Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu og Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu sem vígðu bílinn. Tækifærið var notað til að nýta gamla bílinn sem nú þarf að farga til að sýna fram á að sá orðrómur sem fór af stað í vetur eftir alvarlegt slys þegar kona ók í Reykjavíkurhöfn að betra væri að vera ekki í belti fari bíll í sjóinn til að vera sneggri út, sé rangur. Fékk félagið aðstöðu hjá Eimskip til að láta gamla bílinn renna út í sjó með tvær brúður innanborðs, aðra í belti en hina ekki. Lögreglan mældi hraða bílsins og komst að því að bíllinn lenti á 22 km hraða á sjónum og höggið sem verkaði á farþega var 3 g. Það nægði til að beltislausa dúkkan skall með höfuð í framrúðuna og braut hana. Venjuleg manneskja hefði rotast við þessar aðstæður. Atvikið var myndað bæði innan úr bílnum og utan og mun Samgöngustofa nýta efnið til fræðslu og hefur Ökuskóli 3 þegar nýtt efnið inn í sína kennslu. Félagið vill nota tækifærið og færa öllum þeim sem komu að undirbúningi þessa verkefnis, sem var nokkuð flókinn innilegar þakkir fyrir sitt framlag.
Þeir voru: Eimskip, Lögreglan, ALP-bílaleigan, ET, Köfunarþjónustan, Hekla og Ökuskóli 3.
- Friðbert Friðbertsson afhendir Einari Guðmundssyni, formanni Brautarinnar, og Jóni Hauki Edwald, framkvæmdastjóra Ökuskóla 3, nýjan Veltibíl. Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu stýrði afhendingunni.
- Friðbert Friðbertsson og Þórólfur Árnason fara fyrstu veltuna.
- Fjöldi manns fylgdist með afhendingunni.
- Gamli Veltibíllinn tilbúinn í sína síðustu ferð.
- Gestir og fjölmiðlamenn fylgjast grannt með.
- Gamli bíllinn rennur fram af hafnarbakkanum.
- Þegar hífa átti bílinn upp slitnaði taugin. Bátur frá Landsbjörgu reynir að koma nýrri taug í bílinn.
- Bíllinn sökk og þurfti að kafa eftir honum. Hér er verið að hífa hann upp aftur.
- Bíllin var talsvert tjónaður eftir að hafa lent í sjónum.
Einar Guðmundsson
10. maí 2015 08:47