Neðangreind athugasemd hefur verið send ritstjórn Morgunblaðsins.

Í blaðinu Lifun sem fylgdi Morgunblaðinu föstudaginn 6. mars 2015 var fjallað um fermingar og allt sem tengist þeim. Á síðu 55 í blaðinu eru hugmyndir að fermingargjöfum í eldhúsið og m.a. lagt til að fermingarbörnum sé gefinn tappatogari. Með fylgir ósmekklegur texti þar sem fjallað er um að flestir unglingar læri að umgangast áfengi, bjórinn víki fyrir víni og þá sé tappatogari nauðsynlegur.

Brautin – bindindisfélag ökumanna fordæmir harkalega þessa umfjöllun. Að tengja neyslu áfengis við fermingarbörn sýnir mikið dómgreindarleysi ritstjórnar og með umfjölluninni virðist unglingadrykkja viðurkennd og samþykkt.

Rannsóknir sýna að því lengur sem unglingar og ungmenni bíða með að hefja neyslu áfengis þeim mun minni líkur eru á að viðkomandi lendi í vandræðum með neysluna. Neysla áfengis hefur skaðleg áhrif á unglinga sem enn eru að vaxa og þroskast. Því er til mikils að vinna að seinka upphafi áfengisneyslu eins lengi og kostur er. Hlutverk fjölmiðla er mikilvægt í þessu sambandi og því voru það mikil vonbrigði að lesa umrædda umfjöllun.

Brautin skorar á Morgunblaðið til að axla ábyrgð sína og taka ekki þátt í að samþykkja unglingadrykkju. Fræðsla til foreldra, forráðamanna, kennara og ekki síst unglinganna sjálfra er lykilatriði í að standa vörð um heilbrigði barna og unglinga.

Reykjavík, 12. mars 2015

Einar Guðmundsson
Formaður Brautarinnar

Guðmundur Karl Einarsson

16. mars 2015 09:06