okuleikni1Fyrir undirritaðan er það ætíð afar skemmtilegur tími, þegar Íslandsmeistarakeppni í Ökuleikni fer fram. Fyrir mörgum árum keppti ég sjálfur í þessari keppni með prýðis árangri. Og þrátt fyrir að vera einn af þeim aðilum sem heldur utan um keppnina í dag, þá er það ekki síðra að mæta á keppnisstað, ætíð gaman að sjá sama fólkið koma og keppa sín í milli, stemmingin er alltaf góð.

Helgina 20 – 21. september sl hélt Brautin – bindindisfélag ökumanna Íslandsmeistarakeppni í Ökuleikni á svæði Ökuskóla 3 við Borgartún í Reykjavík, en keppnin hefur verið haldin árlega síðan 1978 og er þannig ein af elstu akstursíþróttum sem keppt er í á Íslandi.   Keppt var á fjórum mismunandi brautum, þar sem ökumenn þurftu að aka við hinar ýmsu krefjandi aðstæður. Tími er tekinn, auk þess sem viðkomandi fá refsistig, ef þrautir eru ekki leystar á réttan hátt.

Rútur og trukkar

okuleikni2Fyrri daginn var keppt á atvinnubílum (rútum, vörubílum og sendibílum) og úrslit urðu þessi:

Rútur (lítil og stór)

  1. Kristján Jóhann Bjarnason, 491 sek
  2. Atli Grímur Ásmundsson, 501 sek
  3. Smári Baldursson, 505 sek

Efstir í liðakeppni urðu lið að nafni „Uppgjafarútubílstjórar“ en það lið var skipað þeim Sigurði Sigurbjörnssyni og Björgvini Gunnarssyni.

Trukkar (lítill sendibíll og stór vörubíll)

  1. Björgvin Gunnarsson, 322 sek
  2. Óskar Kristófer Leifsson, 371 sek
  3. Ævar Sigmar Hjartarsson, 376 sek

„Uppgjafarútubílstjórarnir“ urðu sömuleiðis efstir í liðakeppni á trukkum.

Askja, Lífland, Ölgerðin, Ökukennarafélag Íslands, SBA – Norðurleið og Eimskip studdu dyggilega við Trukka- og rútukeppnina, án góðra bakhjarla er svona keppni ekki framkvæmanleg.

Fólksbílar

okuleikni3Seinni daginn var síðan keppt á fólksbílum, þar sem margir afar góðir ökumenn komu og spreyttu sig. Margir þeirra hafa komið svo árum skiptir, aðrir sjaldnar og ætíð sér maður ný andlit.   Það er samdóma álit keppenda að þeir séu betri ökumenn eftir að þeir tóku þá ákvörðun að taka þátt í Ökuleikni.

Guðný Guðmundsdóttir og Sighvatur Jónsson voru krýnd Íslandsmeistarar í Ökuleikni á fólksbílum en keppnin er hluti af mikilli keppnishelgi við lok Samgönguviku. Guðný og Sighvatur hafa bæði hampað titli áður, Guðný þrisvar sinnum og Sighvatur sex sinnum. Úrvals ökumenn því hér á ferð.

Kvennariðill

  1. Guðný Guðmundsdóttir,                 735 sek
  2. Aníta Rut Gunnarsdóttir,                 944 sek
  3. Ragna Fanney Óskarsdóttir,         976 sek

Karlariðill

  1. Sighvatur Jónsson,                                     390 sek
  2. Atli Grímur Ásmundsson,              458 sek
  3. Sigurður Sigurbjörnsson,              478 sek

Í liðakeppninni var það lið „Meistaranna“ sem varð hlutskarpast en liðið skipa þau Guðný Guðmundsdóttir, Atli Grímur Ásmundsson og Ævar Sigmar Hjartarson.

Að sama skapi á Brautin góða að í fólksbílaflokki, en Hekla og N1 gáfu keppendum verðlaun, Ökukennarafélag Íslands lánaði aðstöðu og samdi spurningar og Ölgerðin lagði til léttar veitingar.

Eftir keppnina vildu menn láta hafa þetta eftir sér:

Einar Guðmundsson, formaður Brautarinnar:

„Félagið stendur fyrir Ökuleikni vegna þessa að við finnum að þetta er leið til að hjálpa ökumönnum að fá tilfinningu fyrir bílnum sem þeir aka auk þess sem þetta er kærkomið tækifæri til þess að rifja upp umferðarreglurnar.  Við höfum séð þetta sérstaklega á flutningabílunum og rútum en við höfum unnið með nokkrum fyrirtækjum og eftir að hafa farið í gegnum námskeið hjá okkur með Ökuleikni hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna séð merkjanlega fækkun á tjónum í þröngum aðstæðum.“

Sighvatur Jónsson, Íslandsmeistari karla í Ökuleikni 2014:

„Ég tek þátt því Ökuleikni er eina mótorsportið sem ég tími að keppa í og það er virkilega gaman að taka þátt. Þetta er fín upprifjun á umferðarreglunum enda þarf maður að leggjast yfir spurningarnar. Að taka þátt er góð æfing og rímar vel við umferðina sjálfa.“

Guðný Guðmundsdóttir, Íslandsmeistari kvenna í Ökuleikni 2014:

„Ég tek þátt í Ökuleikni vegna þess að mér finnst það gaman en ég tók fyrst þátt árið 1985. Mér finnst þátttaka í Ökuleikni gefa mér betri tilfinningu fyrir bílnum þegar ég keyri og þá rifjast umferðarreglurnar upp fyrir mér þegar ég svara spurningunum.“

Næsta Íslandsmeistarakeppni í Ökuleikni verður haldin í september 2015. Öllum er frjáls þátttaka, eina skilyrðið er að aðili hafi ökupróf á viðkomandi ökutæki.

Páll Halldór Halldórsson, ritari Brautarinnar.

Páll H. Halldórsson

21. desember 2014 17:17