grikkland1Nýlega höfðu grísk umferðarsamtök RSI (Road Safety Institut) samband við Brautina og óskuðu eftir samstarfi við okkur þar sem bæði samtökin eru frjáls félagasamtök.

Þessi samtök eru ekki alveg ókunn Íslandi því árið 2010 komu þau til landsins eftir að hafa heyrt af opnun Forvarnahússins. Það verkefni var tekið upp í Grikklandi og fór formaður Brautarinnar tvívegis til Grikklands til að aðsoða við stofnun Forvarnahúss þar.

Að þessu sinni bauðst grísku samtökunum að tengja sig við samtök í Lichtenstein, Noregi eða Íslandi til að vinna að verkefni sem Evrópusambandið styður. Þau leituðu til Brautarinnar vegna góðrar reynslu af fyrra samstarfi.

Evrópusambandið greiddi fyrir ferð formanns Brautarinnar til Grikklands og er verkefnið að styrkja inniviði RSI. Hlutverk Brautarinnar var að meta það starf sem er í gangi í dag og koma með tillögur að markvissara forvarnastarfi í Grikklandi. Ekki er vanþörf á þar sem banaslysatíðni er mjög há og Grikkland 6. Versta þjóðin hvað banaslys varðar í Evrópu.

Formenn félaganna ræddu frekara samstarf og má nefna að Grikkirnir vilja gjarna vinna með Brautinni að verkefni um fræðslu á netinnu sem fjallar um ölvunarakstur og fíkniefna akstur. Brautin er langt komin með að gera gott efni um áhrif áfengis á ungt fólk og afleiðingar ölvunaraksturs. Þetta verkefni er hugsað til að styðja við starf lífsleiknikennara um þetta efni og unnið í samvinnu við Félag lífsleiknikennara. Það sem eftir er að gera er að gera kennarahefti og myndskreyta. Grikkirnir hafa á að skipa mjög færum teiknara og hafa lagt til að þeir fái að nota efnið í Grikklandi gegn því að gera teikningar við efnið sem Brautin getur notað. Stjórn Brautarinnar er að skoða þennan möguleika.

RSI vinnur náið með skátahreyfingunni um allan heim og eru að undirbúa aðkomu að heimsmóti skáta í Japan næsta sumar. Þeir hafa boðið Brautinni aðkomu að þessu verkefni, m.a. með því að leggja fyrir íslenska skáta könnun sem snýr að umferð og umferðaröryggi.

Grikkirnir eru einnig mjög áhugasamir að taka upp Ökuleikni fyrir fyrirtæki með svipuðum hætti og Brautin er að gera. Þeir fengu kynningu á gagnsemi Ökuleikninnar hjá íslenskum fyrirtækjum og fengu m.a. að sjá tölur frá Eimskip sem sýna verulega fækkun tjóna eftir að bílstjórar voru á bílstjóranámskeiði þar sem Ökuleikni var hluti af. Þar var hún sniðin að þörfum Eimskips og þá sérstaklega út frá þeim tjónum sem bílstjórar á flutningabílunum eru að lenda í.

Ljóst er að um spennandi samstarf er að ræða ef af verður og mun þetta gefa Brautinni tækifæri á að efla starf sitt.

Einar Guðmundsson, formaður Brautarinnar

Einar Guðmundsson

21. desember 2014 22:16