hradakonnun1 Brautin gerði könnun á ökuhraða á tveimur stöðum í Grafarvogi í kjölfar þess að félaginu hafði borist athugasemd um mikinn hraða á ákveðnum götum. Göturnar voru Strandvegur og Fjallkonuvegur við Foldaskóla. Á Strandvegi var leyfilegur hámarkshraði 50 km/klst en við Foldaskóla er hann 30 km/klst á Fjallkonuvegi.

 

Strandvegur

200 ökutæki voru mæld og þau flokkuð í einkabíla, leigubíla, ltila og stóra sendibíla, og strætó. 90% bílanna sem fóru um svæðið voru einkabílar og 8% voru litlir sendibílar.

Einungis 4% ökumanna óku á löglegum hraða. Langflestir voru á 66-70 km hraða og mesti hraði sem mældur var, var 96 km/klst. Meðalhraðinn var 65 km/klst.

hradakonnun1

23% sendibílanna voru á löglegum hraða en þeir voru einnig sá hópur sem hlutfallslega óku hraðast. 33% þeirra óku yfir 70 km/klst. 97% einkabílanna voru yfir löglegum hraða á Strandvegi.

hradakonnun2

Hefur sýnileiki lögreglu áhrif á ökuhraða?

Brautin gerði tvær kannanir á Fjallkonuvegi við Foldaskóla þar sem 30 km hámarkshraði er. Fyrri könnunin var gerð í ómerktum bíl þar sem starfsmenn voru ósýnilegir inni í bílnum. Seinni könnunin var gerð í merktum bíl með gul blikkandi toppljós og starfsmenn vel merktir og sýnilegir við bílinn. Niðurstaðan var sláandi eins og neðangreint línurit sýnir. Einungis 8% óku á löglegum hraða í fyrri könnuninni og meðalhraðinn var 38,1 km/klst. Hins vegar óku 34% ökumanna á löglegum hraða þegar starfsmenn voru sýnilegir og 64% ökumanna óku á 35 km hraða og lægra meðan 34% óku á 35 km hraða og lægra þegar mælingarmenn voru ósýnilegir. Ljóst er að sýnileiki skiptir máli, jafnvel þó ekki sé um lögreglu að ræða. Mæld voru 185 ökutæki.

hradakonnun3

Hverjir óku hraðast?

Mestur munur var á hraða strætó eftir því hvort mælingamenn voru sýnilegir eða ekki. Þar á eftir voru litlir sendibílar.

hradakonnun4

Flest ökutæki sem um Fjallkonuveg fóru þegar mælingin fór fram voru fólksbílar og strætó. 86% þeirra voru fólksbílar og 10% voru strætisvagnar.

Það kom verulega á óvart að enginn strætisvagn ók á löglegum hraða fram hjá Foldaskóla. 45,5% þeirra voru á 31-35 km/klst en 54,5% strætisvagnanna voru á meiri hraða og 18,2% þeirra voru á 50 km/klst.

hradakonnun5

Hraðamælingin við Foldaskóla var gerð á virkum degi meðan skólahald var í gangi og nemendur að koma og fara í skólann. Það er því áhyggjuefni hve ökumenn virða illa hámarkhraðareglur. Við Foldaskóla er ljósaskilti sem segir ökumönnum til um hraða þeirra og auk þess hraðahindranir.

Brautin – bindindisfélag ökumanna telur að bættur sýnileiki lögreglu sé mikilvægur til að halda niðri hraða. Þá er ljóst að hraðamyndavélar hafa skilað árangri í lækkun hámarkhraða og má gjarnan nýta þær víðar. Félagið hvetur ökumenn til að virða hámarkshraða og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi fyrir alla vegfarendur.

Einar Guðmundsson

10. desember 2014 17:55