IMG_5019Í dag voru Guðný Guðmundsdóttir og Sighvatur Jónsson krýnd Íslandsmeistarar í Ökuleikni á fólksbílum en keppnin er hluti af mikilli keppnishelgi við lok Samgönguviku. Það var Brautin – bindindisfélag ökumanna sem stóð fyrir keppninni sem hefur verið haldin síðan 1978. Guðný og Sighvatur hafa bæði hampað titlinu áður þar sem þetta er í þriðja skipti sem Guðný er Íslandsmeistari og sjötta skipti sem Sighvatur er Íslandsmeistari.

Alls voru 16 keppendur skráðir til leiks. Fyrsta þrautin fólst í að svara nokkrum umferðarspurningum. Sett voru upp tvær keppnisbrautir sem keppendur áttu að aka í gegnum tvisvar en allir fóru í gegn á VW  bifreiðum sem Hekla lánaði. Tíminn var tekinn og fyrir hverja villu sem gerð var í brautinni bættust 10 sekúndur við tímann.

Hvassviðri gerði keppnishaldið erfitt en þó tókst að ljúka keppni án óhappa.

Hekla og N1 gáfu keppendum verðlaun, Ökukennarafélag Íslands lánaði aðstöðu og samdi spurningar og Ölgerðin sá til þess að enginn væri þyrstur.

Einar Guðmundsson, formaður Brautarinnar:

„Félagið stendur fyrir Ökuleikni vegna þessa að við finnum að þetta er leið til að hjálpa ökumönnum að fá tilfinningu fyrir bílnum sem þeir aka auk þess sem þetta er kærkomið tækifæri til þess að rifja upp umferðarreglurnar.  Við höfum séð þetta sérstaklega á flutningabílunum og rútum en við höfum unnið með nokkrum fyrirtækjum og eftir að hafa farið í gegnum námskeið hjá okkur með Ökuleikni hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna séð merkjanlega fækkun á tjónum í þröngum aðstæðum.“

Sighvatur Jónsson, Íslandsmeistari karla í Ökuleikni 2014:

„Ég tek þátt því Ökuleikni er eina mótorsportið sem ég tími að keppa í og það er virkilega gaman að taka þátt. Þetta er fín upprifjun á umferðarreglunum enda þarf maður að leggjast yfir spurningarnar. Að taka þátt er góð æfing og rímar vel við umferðina sjálfa.“

Guðný Guðmundsdóttir, Íslandsmeistari kvenna í Ökuleikni 2014:

„Ég tek þátt í Ökuleikni vegna þess að mér finnst það gaman en ég tók fyrst þátt árið 1985. Mér finnst þátttaka í Ökuleikni gefa mér betri tilfinningu fyrir bílnum þegar ég keyri og þá rifjast umferðarreglurnar upp fyrir mér þegar ég svara spurningunum.“

Veitt voru verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í kvennariðli og karlariðli. Auk þess gafst keppendum kostur á að mynda lið og var efsta liðið verðlaunað sérstaklega.

Kvennariðill

  1. Guðný Guðmundsdóttir, 735 sek
  2. Aníta Rut Gunnarsdóttir, 944 sek
  3. Ragna Fanney Óskarsdóttir, 976 sek

Karlariðill

  1. Sighvatur Jónsson, 390 sek
  2. Atli Grímur Ásmundsson, 458 sek
  3. Sigurður Sigurbjörnsson, 478 sek

Í liðakeppninni var það lið Meistaranna sem varð hlutskarpast en liðið skipa þau Guðný Guðmundsdóttir, Atli Grímur Ásmundsson og Ævar Sigmar Hjartarson.

Sjá myndir frá keppninni. 

Úrslit fólksbílar 2014

Guðmundur Karl Einarsson

21. september 2014 17:11