Nú er nýlokið 60 ára afmælis ári Brautarinnar. Félagið var stofnað 29. September 1953 og er ljóst að stofnun félagsins átti eftir að hafa mikil áhrif á sitt samtímaumhverfi.  Greinilegt að mikil þörf var fyrir félag sem var á bindindisvængnum og vildi vinna að bættu umferðaröryggi og með sér áherslu á að fá ökumenn til að aka ekki undir áhrifum áfengis.

Öll þau 60 ár hefur félagið unnið ötullega að þessum markmiðum með ýmsum hætti.  Það var því með mikilli gleði og ánægju að félagið hélt upp á 60 ára afmælið sitt.

Á aðalfundi félagsins í maí 2013 var sérstakur afmælisnefndarhópur stofnaður.  Þótti það viðeigandi að forsetar og formenn félagsins tækju þátt í að undirbúa afmælið.   Þeir sem sátu í nefndinni voru:

  • Sigurður R Jónmundsson
  • Reynir Sveinsson
  • Sveinn H Skúlason
  • Páll H Halldórsson
  • Brynjar M Valdimarsson
  • Gunnar Þorláksson
  • Halldór Árnason
  • Einar Guðmundsson
  • Haukur Ísfeld

Fljótlega ákváðu nefndarmenn að afmælisárið skyldi nýtast ungu fólki í umferðinni.  Kraftar og kostnaður yrði miðaður við það.  Auk þess þótti mikilvægt að minnast tímamótanna sjálfan afmælisdaginn en þó ekki með hástemmdum hætti svo nýta mætti krafta meira að aðalverkefninu.

Ýmsar hugmyndir skutu upp kollinum um það hvernig koma mætti skilaboðum til unga fólksins um það að aka ekki undir áhrifum áfengis eða aka eftir neyslu fíkniefna.

Farið var í mikla vinnu um að kanna hvaða rannsóknir hafa verið gerðar.  Haft var samband við ýmsa aðila sem vinna að þessum málum.   Þá þótti mikilvægt að tengja verkefnið fjölmiðlum.

Verkefnið sem út úr þessari vinnu kom var að gera námsefni fyrir fyrstu bekki framhaldsskóla.  Haft var samband við Félag Lífsleiknikennara og þeim boðið að fá þetta efni þeim að kostnaarlausu.

Eftir nokkra fundi með Lífsleiknikennurum var ákveðið að Brautin legði vinnu í að taka saman efni um helstu hættur áfengis og vímuefna í umferðinni.  Efnið skyldi birt á heimasíðu Brautarinnar og nemendur beðnir um að sækja sér það efni, gera ákveðin verkefni sem hluta af lífsleikninni.  Þessi verkefni yrðu hluti af einkunn þeirra í áfanganum.  Auk þess var ákveðið að bjóða nemendum að taka þátt í samkeppni Brautarinnar með því að dýpka sín verkefni og gera einhvers konar kynningarefni, á formi myndbands, glærukynningar eða með öðrum hætti.  Brautin myndi í samráði við Félag Lífsleiknikennara og fagaðila velja besta verkefnið og verðlauna það.  Haft var samband við Kastljós og voru menn þar á bæ áhugasamir um að kynna þetta verkefni.  En vegna mikilla breytinga þar undanfarið er ekki ljóst að af því verði.

Nú er búið að gera fyrsta hluta efnisins, upplýsingar um áfengi og akstur.   Verið er að gera efnið klárt til að birtast á vefnum.  Hugmyndin var að nýta efnið á vorönn en vegna kjaramála hefur ekki verið unnt að gera slíkt.  Því líta menn til haustsins.

Næsta skref er að taka saman sambærilegt efni um fíkniefni og akstur.  Verður efnið bæði fyrir nemendur og kennsluleiðbeiningar fyrir kennara.

29. september 2013.

Á afmælisdaginn sjálfan hélt félagið upp á 60 ára afmælið með veglegri veislu í húsakynnum IOGT í Brautarholti.  Í tilefni afmælisins var sett upp sýning sem sýndi ýmsa muni sem félagið hefur notað í sínu starfi undanfarin ár.  Þá gekk myndasýning úr starfi félagsins á skjá.  Gestir fengu í smá gjöf myndasýninguna á minniskubbi með sér heim.

Formaður félagsins setti afmælishátíðina.

Gunnar Þorláksson var með erindi um starf félagsins á þesusm 60 árum og greindi frá því hve öflugt félagið hefur verið á þessum tíma og komið mörgum málum áfram, s.s. notkun bílbelta, notkun ökuljósa allan sólarhringinn, lækkun prómillmarka sem nú hyllir undir að verði að veruleika, svo eitthvað sé nefnt.  Enn í dag eru mörg verkefni sem félagið hefur gert s.s. að útbúa veltibíl og með þeim hætti að leyfa ökumönnum og farþegum að upplifa á eigin skinni mikilvægi notkunar bílbelta. Árangurinn er að í dag er öllum ökunemum skylt að fara í veltibíl sem hluta af forvarnahúsi í síðasta hluta ökunámsins, Ökuskóla 3.

Framundan er áframhaldandi vinna við helstu markmið félagsins og hvetur félagið alla félagsmenn sem geta að ljá félaginu lið í þessari mikilvægu baráttu.

Einar Guðmundsson
formaður.

Einar Guðmundsson

23. maí 2014 16:48