Það er í raun aðeins ein ástæða fyrir bindindi, einstaklingur vill ekki vera undir áhrifum utanaðkomandi vímuefna. Það eru hins vegar óteljandi afsakanir hvernig fólk afþakkar áfengi og önnur vímuefni. Þær koma æ oftar fram þar sem að aðstæðum hefur fjölgað umtalsvert þar sem boðið er upp á áfengi eða önnur vímuefni.

Framboð á áfengi og öðrum vímuefnum hefur aukist undanfarin ár og aðgengi orðið æ betra. Þjóðfélagið er að ákveðnu leiti orðið samþykkt áfengisneyslu og þykir ekki lengur tiltökumál að sjá almenning undir áhrifum. Skemmtistaðir keppast um að fá til sín viðskiptavini og í markaðssetningu sinni hvetja þau til áfengisneyslu og segja að ekki sé hægt að skemmta sér öðruvísi en undir áhrifum áfengis og annara vímuefna.

Þeir sem bjóða til fagnaðar verða að passa upp á að öllum líði vel og það sé eðlilegt að þiggja ekki áfengi. Vímulausar veigar eiga að vera sjálfsagðar á boðstólum hvar sem komið er. Sá sem ekki vill neyta áfengis eða annara vímuefna á ekki að þurfa að afsaka sig. Þeir sem eru þekktir fyrir neyslu áfengis eða annara vímuefna finnst jafnvel neysla ekki eðlileg við ákveðnar aðstæður. Á foreldrafundi í skólanum, á bæjarhátíð með fjölskyldunni sinni, ef setjast á undir stýri eða á vinnutíma.

Verðandi móðir er líklega ekki boðið áfengi þar sem flestir vita að það getur valdið skaða hjá fóstri. Ökumönnum er hinsvegar boðið. Það getur verið erfitt að sjá hver ætlar sér að fara undir stýri þegar fögnuði er lokið. Fréttaflutningur greinir æ oftar frá því að lögreglan hafi afskipti af þeim sem er undir áhrifum áfengis og annara vímuefna. Við þurfum að sporna við fótum og viðurkenna að bindindi á betur við á mörgum stöðum en víman. Fáum fleiri í lið með okkur til að draga úr neikvæðum áhrifum neyslu áfengis og annara vímuefna.

 

Reykjavík 20. Febrúar 2014

Aðalsteinn Gunnarsson

Guðmundur Karl Einarsson

23. maí 2014 16:57