vetrardekkBrautin-bindindisfélag ökumanna gerði könnun á 272 bílum sem lagt hafði verið í Smáralind þann 2. desember síðastliðinn.  Geta má þess að hálka og snjór var þennan dag á götum Höfuðborgar-svæðisins. Þrátt fyrir það var 5% bílanna enn á sumardekkjum og fjórði hver þeirra var á mikið slitnum sumardekkjum.  8% bílanna voru á ósamstæðum dekkjum sem gat verið á ýmsa vegu, eitt, tvö eða þrjú sumardekk móti vetrardekkjum, varadekk (aumingi), eitt eða tvö nagladekk móti vetrardekkjum svo dæmi séu nefnd.

Á línuritinu hér fyrir neðan má sjá að 87% ökumanna voru á vetrardekkjum, með eða án nagla.

tegundir_dekkja

Mismunadi ástand dekkja

Ástand dekkjanna var skoðað og metið af tveimur starfsmönnum. Fimmti hver bíll var með mikið slitin dekk sem lítið mega sín í því vetrarfæri sem var þennan dag á götum borgarinnar.

astand_dekkja

45% bíla voru með hálfslitin dekk, með að meðaltali 4 mm myndturdýpt.  Þessi dekk eru mörg hver enn ágæt en sum þeirra eiga stutt eftir í að verða mikið slitin.  Eingungis 36% bílanna voru með ný eða nýleg dekk sem voru lítið slitin eða óslitin.

Hvað er það sem fær fólk til að aka á lélegum dekkjum?  Er það ástandið í þjóðfélaginu? Eru það verð dekkjanna og umfelgunar?  Eða er það kannski bara slóðaskapur?

Að mati Brautarinnar þá ættu dekk að vera eitt af forgangsatriðum þegar kemur að viðhaldi bíla.  Þetta eru einungis fjórir lófastórir fletir sem við treystum á til að hafa stjórn á bílnum, aka af stað, beygja, eða hemla.   Öryggi bílstjóra, farþega og þeirra sem eru samferða okkur í umferðinni er í húfi.  Því miður hafa of mörg slys og óhöpp orðið vegna lélegs dekkjabúnaðar.

Samkvæmt könnun Samgöngustofu má fá góð vetrardekk á meðalfólksbíl fyrir 12-15 þúsund kr. Með dekkjaskiptum er það um 54-65 þúsund krónur.  Í auglýsingu frá einni raftækjaverslun er 40 tommu flatskjár með full HD auglýstur á 100 þúrund krónur. Það má því benda á að í flestum tilfellum má fá góð vetrardekk fyrir hluta af andvirði meðal flatskjás. Munurinn er sá að flatskjárinn hjálpar lítið þegar bíllinn fer að skrika og missir veggripið.

Ljóst er að hemlunarvegalengd hjá meira en helmingi bílanna sem kannaðir voru hefur aukist verulega frá því dekkin undir bílunum voru ný og hún á bara eftir að aukast. Smá tjón á bílnum er fljótt að verða dýrara en vetrardekkin. Fá má gott vetrardekk fyrir eitt framljós sem brotnar við tjón og líklega þó nokkur afgangur.

Um leið og Brautin-bindindisfélag ökumanna óskar ökumönnum gleðilegrar hátíðar, hvetur félagið ökumenn til að forgangsraða með tilliti til öryggis og ekki spara í dekkjum.

Einar Guðmundsson

17. desember 2013 12:08