hjoladBrautin – bindindisfélag ökumanna hefur undanfarin ár fylgst með því hvernig reiðhjólaverslanir fara eftir reglugerð um búnað reiðhjóla.  Því miður fara margar verslanir ekki eftir þessari reglugerð.  Það sem verra er, það virðist enginn opinber aðili fylgjast með því að henni sé fylgt eftir.

Í könnun sem Brautin gerði í vor kom í ljós að einungis 4% allra þeirra 404 reiðhjóla sem könnuð voru í 15 stærstu verslunum á höfuðborgarsvæðinu stóðust alveg reglugerðina.

Reglugerðin úrelt

Núverandi reglugerð er frá 1994 og gerir ráð fyrir að eftirfarandi búnaður sé á öllum reiðhjólum: Bjalla, glitmerki að framan og aftan, glitmerki á fótstigum, teinaglit, bremsur á fram og afturhjóli, keðjuhlíf og lás.  Í rökkri og myrkri skal einnig hafa ljós að framan og aftan. Engu skiptir hvort hjólið sé keppnishjól eða ekki eða hvort því er eingöngu beitt utan alfaraleiða eða ekki.  Það er aðkallandi verkefni að endurskoða reglugerð um búnað reiðhjóla og ekki síst að flokka þau nánar út frá notkun og eðli.  Á að gera  sömu kröfur til rafmagnsreiðhjóla sem komast hraðar og eru mun þyngri en hefðbundin hjól og venjulegra reiðhjóla? Endurskin er komið í marga hjólbarða og er ekki lengur í teinum.  Er slíkt hjól þá ekki lengur löglegt þar sem reglugerð gerir bara ráð fyrir teinagliti.

Þegar kannað var viðhorf þeirra sem selja hjól, þá kom oft í ljós að þekking á reglugerðinni var ekki til staðar.  Þá kom fram hjá sumum reiðhjólasölum að það væri ekki þeirra að sjá til þess að reiðhjól væru lögleg heldur þeirra sem keyptu þau.

Niðurstaðan

Hér má sjá helstu niðurstöður könnunarinnar:  Þau voru flokkuð niður eftir því hvort þau væru venjuleg götuhjól eða hvort þau eru notuð sem keppnishjól eða í jaðarsporti (sérstök hjól)

nidurstada-2013

Það vekur athygli hve fá hjól eru með bjöllu.  Tæki sem mjög mikilvægt er að hafa, ekki síst þegar hjólanotkun hefur aukist svo mikið.  Það er skiljanlegra að ekki fylgi lás hjólum, því fólk vill gjarna velja sína lása sjálft.  Reiðhjólasalar segja fólk meðvitaðra um að læsa hjólum sínum í dag en var fyrir nokkrum árum. Sumir kaupendur hafa þurft að læra af biturri reynslu.

Hér fyrir neðan má sjá þróunina milli ára á einstaka búnaði reiðhjóla:

throun-oryggisbunadar

Reiðhjól með öllu nema lás

Tvær verslanir stóðu sig vel að selja reiðhjól með öllum búnaði ef frá var talinn lásinn. Það eru verslanirnar Berlín á Snorrabraut, G.Á.Pétursson í Skeifunni með öll hjól lögleg (án lássins). Næst á eftir var Ellingsen en sú verslun var með bjöllu á öllum reiðhjólum og almennt með allan búnað á götuhjólunum, það voru helst keppnishjólin sem vantaði búnað eins og keðjuhlíf.  Sumar verslanir eru mjög sérhæfðar og er hlutfall sérstakra hjóla því mjög hátt.  Þær koma því eðlilega verr út í svona könnun.  Þetta eru verslanir eins og Kría og Tri.  Þá eru stórar sérhæfðar verslanir eins og Örninn einnig með mörg sérhæfð hjól sem gerir það af verkum að samanburður verður slæmur.  En reglugerðin er afdráttarlaus og fyrst sumar verslanir eru með sérstök hjól með nánast allan búnað, af hverju eru aðrar þá ekki með sín hjól samkvæmt reglugerðinni?

Á næsta línuriti má sjá hvernig helstu verslanirnar á höfuðborgarsvæðinu stóðu sig út frá búnaði að frátöldum lás:

fjoldi-hjola-med-allt-nema-las

Ef bjalla er einnig tekin burt, þar sem hana vantar nokkuð oft og mjög margir reiðhjólasalar bjóða sínum viðskiptavinum hana með fyrir lítið verð eða jafnvel frítt, þá voru verslanirnar einnig bornar saman út frá því að ekki var bjalla, lás eða ljós (sem ekki er þörf á á þessum tíma árs) á hjólunum.

stada-reidhjolaverslana

Þróunin milli ára

Ef bjalla lás og ljós eru ekki talin með þá má sjá að ástandið hefur örlítið batnað frá því í fyrra en er lakara en árin þar á undan. Hér á fyrir neðan má sjá þróunina milli ára.

logleg-hjol-eftir-arum

Lokaorð

Brautin hvetur opinbera aðila að endurskoða reglugerð 57/1994 um gerð og búnað reiðhjóla til samræmis við þá þróun sem orðið hefur á reiðhjólum á undaförnum árum.  Þá er mikilvægt að tilgreina ábyrgð þeirra sem selja reiðhjól hvað varðar að selja lögleg reiðhjól.

Þá hvetur Brautin reiðhjólaverslanir að bjóða einungis upp á lögleg reiðhjól og í það minnsta að upplýsa neytendur um hvað þarf að vera á reiðhjóli svo það teljist löglegt.

Smelltu hér til þess að fá upplýsingar um þann búnað sem áskilið er að hafa á reiðhjóli.

Niðurstöður reiðhjólakönnunar 2013

Einar Guðmundsson

25. júní 2013 11:41