Í dag kveðjum við traustan og kæran félaga. Elsa var virkur félagi í Brautinni – bindindisfélagi ökumanna, árið 1985 tók hún fyrst sæti í stjórn félagsins og var stjórnarmaður til ársins 1999 eða í 15 ár samfelt. Störf hennar einkenndust alltaf af jákvæðni og eljusemi. Það var sama hvaða verkefni hún fékk, hún tók þau alltaf að sér með bros á vör og leysti þau ætíð af hendi með sóma.

Það hefur örugglega ekki verið auðvelt fyrir Elsu að koma inn í stjórn félagsins, fyrst kvenna, en félagið var stofnað árið 1953 og þar höfðu karlar ætíð ráðið ríkjum. Málefnið var henni hugleikið og hún var óhrædd við að láta skoðun sína í ljós og kynnti sér vel það sem máli skipti og var ötul að benda á það sem betur mætti fara og koma með nýjar hugmyndir. Það var gott að vinna með henni og þar sem hún var nálægt var gott að vera. Þrátt fyrir að hverfa úr stjórn, tók hún áfram þátt í ýmsum verkefnum fyrir félagið og alltaf með sömu jákvæðninni, jafnvel eftir að hún veiktist, vildi hún vera með og rétti hjálparhönd þegar á þurfti að halda.

Á þessum degi þegar við kveðjum okkar ástkæru Elsu, þökkum við henni og fjölskyldu hennar fyrir störf í þágu Brautarinnar og jafnframt fyrir þær góðu samverustundir sem við áttum.

Brautin – bindindisfélag ökumanna

Einar Guðmundsson
formaður

Einar Guðmundsson

20. júlí 2012 06:00