Nú er sumarið gengið í garð með tilheyrandi veðurblíðu. Starf Brautarinnar í sumar verður með nokkuð breyttu sniði frá síðastliðnum sumrum þar sem Veltibíllinn er nú ekki leigður út nema við einstaka hátíðarhöld en að öðru leyti er hann staðsettur í Ökuskóla 3 þar sem ökunemar fara veltu.

Þó er bíllinn búinn að vera tvisvar sinnum á bílasýningu hjá Heklu á vormánuðum. Á sjómannadaginn var hann í Grindavík þar sem 640 manns fóru veltu, um næstu helgi verður hann á Kótelettunni á Selfossi og 17. júní verður Veltibíllinn við Sundlaug Kópavogs þar sem mikil dagskrá fer fram í tilefni dagsins.

Ökuleiknin er að koma sterk inn aftur og verður haldin keppni á Akureyri þann 16. júní nk. Keppnin verður hluti af Bíladögum á Akureyri og er búist við miklum fjölda keppenda.

Ný stjórn

Aðalfundur Brautarinnar var haldinn 29. maí og var þar ný stjórn kosin. Formaður félagins er Einar Guðmundsson en í stjórn sitja einnig Helgi Hafsteinsson og Guðmundur Karl Einarsson. Varamenn eru Aðalsteinn Gunnarsson og Guðjón B. Eggertsson.

Á fundinum voru samþykktar nokkrar ályktanir sem munu birtast hér á vefnum og víðar á næstu vikum.

Guðmundur Karl Einarsson

4. júní 2012 22:40