Framundan er skemmtilegur tími, áramótin. Tækifæri til að hitta vini og fjölskyldu og fagna saman. Það er ekki óalgengt að fagna nýju ári með því að skála. Margir láta það ekki nægja heldur fá sér í glas í góðra vina hópi sem ekkert athugavert er við.

Þegar gleðinni lýkur getur verið snúið að komast heim ef enginn í hópnum er edrú. Bið eftir leigubíl getur tekið á. Svo er stórhátíðarálag og mun dýrara að taka leigubíl á nýjársnótt svo freistingin að nota bílinn sem stendur við útidyrnar getur orðið nokkuð mikil.

En kostnaðurinn við einn leigubíl er smámunir í samanburði við það sem getur gerst ef við veljum að aka drukkin. Minnsti kostnaðurinn er ef við erum svo heppin að lögreglan stöðvar okkur, þá er það bara 70-160 þúsund auk þess að missa prófið í allt að tvö ár miðað við fyrsta brot og að ekkert annað brot hafi verið framið.

Ef tjón verður, þá er bíllinn ótryggður og það lendir á okkur og margir hafa tapað öllu vegna þess. En það er ekki stærsta refsingin því sá sem verður valdur að slysi eða bana annarar manneskju getur aldrei fyrirgefið sér að hafa valið bílinn í stað þess að taka leigubíl.

Þegar við fáum okkur í glas deyfum við dómgreindina smátt og smátt og þegar að heimferð kemur, er ekki víst að hún sé til staðar til að stoppa okkur. Fyrir bragðið teljum við ekkert mál að aka ölvuð, þó svo við við myndum aldrei láta okkur detta það í hug edrú. Ráðið við þessu er bara að skilja bílinn eftir heima eða afhenda öðrum sem ætlar ekki að drekka bíllykilinn.

Látum ekki ölvunarakstur eyðileggja fyrir okkur áramótin. Er ekki upplagt að eitt af áramótaheitunum sé að aka aldrei undir áhrifum áfengis eða annara vímuefna? Slíkt heit er fjárfesting til framtíðar.

Gleðilega hátíð.

Einar Guðmundsson

27. desember 2011 17:18