Nú er tími jólahlaðborðanna í algleymingi. Margir skjótast í hádeginu og fara oft á bílnum því vinnan bíður þegar gómsætum veitingum jólahlaðborðsins hefur verið gerð góð skil. Og það er í raun allt í lagi að fara á bílnum en þá verðum við að velja réttu drykkina með matnum, hafa þá óáfenga. Það er nefnilega ekki rétt að það sé í lagi að fá sér einn léttan og aka til baka eftir jólahlaðborðið. Margir halda að það sé í lagi þar sem hans er neytt með mat.

Þó áfengisáhrifin séu minni vegna matarins, þá breytir það ekki hlutfalli áfengisins í blóði. Sumir telja að leyfilegt sé að hafa smá ágengismagn í blóði þar sem refismörkin eru 0,5 prómill. En umferðarlögin eru skýr: ekki má aka eftir að hafa neytt áfengis. Lögreglan mun ekki heimila akstur þó prómillmagnið sé 0,3 eða 0,4 því það er einnig brot á umferðarlögunum.

Við getum flokkað ökumenn sem aka undir áhrifum í nokkra flokka. Meðal þeirra eru þeir sem gera það vegna þess að þeir telja að lögreglan nái þeim ekki, sér í lagi þar sem þeim tókst það síðast, og svo eru þeir sem telja sig yfir umferðarlögin hafna og mega brjóta þau að vild, bæði hvað hraða og ölvun varðar.

Í báðum tilfellum erum við hin sem í umferðinni aka í hættu ef við mætum þeim. Þeir hugsa bara um sig og sínar þarfir. Myndu þeir leyfa sér að aka í þessu ástandi eftir þeirri götu sem barnið þeirra leikur sér við? – Líklega ekki, því þá snertir það þeirra eigin hagsmuni.

Ég vona að þú lesandi góður sért ekki í þessum hópi. Hafirðu hins vegar ekið undir áhrifum áfengis eða annara vímuefna er ekki of seint að snúa blaðinu við. Það er ákvörðun okkar sjálfra hvernig við hegðum okkur í umferðinni. Sýnum þá ábyrgð að aka ekki undir áhrifum áfengis eða annara vímuefna og gefum okkur það í jólagjöf.

 

Einar Guðmundsson

23. desember 2011 11:02