Samkvæmt frétt mbl.is í dag, þann 6. nóvember, eru áfengiskaup foreldra fyrir ungmenni undir því yfirskyni að „þau viti þá hvað börnin eru að drekka“ ekki til þess fallin að draga úr drykkju ungmennanna en þetta kemur fram í erindi Kjartans Ólafssonar, lektors í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.

Þá kemur fram að þau börn sem hafa fengið áfengi frá foreldrum sínum séu líklegri til þess að lenda í vandræðum með áfengisneyslu. Auk þess sendi áfengiskaup foreldranna þau skilaboð að áfengisdrykkja ungmennanna sé eðlileg og í lagi. Það hafi hugsanlega þau áhrif að ungmennin drekki meira og lendi þannig frekar í vandræðum.

Kjartan hélt erindi á ráðstefnu um íslenskar æskulýðsrannsóknir í gærmorgun. Fjallaði hann um uppruna áfengis sem unglingar drekka og tengsl við drykkjumynstur þeirra. „Ég skoðaði fyrst og fremst hvort foreldrar geti komið í veg fyrir að unglingarnir drekki heimabrugg, smyglað áfengi eða álíka, með því að kaupa áfengi fyrir þá sjálfir. Meginniðurstaðan er sú, að það virkar ekki þannig. Ungmenni sem eiga foreldra sem kaupa fyrir þau áfengi eru einnig líklegri til að fá áfengi eftir öðrum leiðum,“ segir Kjartan en könnunin beindist að nemendum í tíunda bekk grunnskóla, þ.e. 15-16 ára unglingum.

Sjá grein á mbl.is: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/11/06/afengiskaup_foreldra_vidbot_vid_adra_drykkju/

Guðmundur Karl Einarsson

6. nóvember 2010 11:50