Forsíðumynd "Brautarinnar" 1962

Þann 1. apríl 1962 kom út tímaritið Brautin Félagsrit Bindindisfélags ökumanna og var það 1. árgangur blaðsins. Þar er meðal annars grein sem ber yfirskriftina „Promille“-ákvæðin og er þar rætt um mikilvægi þess að lækka refsimörk vegna ölvunaraksturs úr 0,5 promille. Það er gleðiefni að í drögum að nýjum umferðarlögum er gert ráð fyrir að lækka refsimörk ölvunaraksturs niður í 0,2 promille. Að teknu tilliti til vikmarka er í raun verið að færa mörkin niður í 0 promille. Það sannast því hér að dropinn holar steininn… 48 árum síðar. Greinin fylgir hér með:

„Promille“-ákvæðin

Það dregur ekki úr drykkjuakstrinum. Fimm ökumenn teknir við stýrið undir áhrifum áfengis eina vikuna. Tíu þá næstu. Það sýnir alveg örugglega, að hér sé ekki um afbrot að ræða, sem menn óttist svo mjög að drýgja.
Færast ökubytturnar í aukana, vex drykkjuskapurinn meira en svarar aukningu ökumanna. Ég veit þetta ekki, enda ekki kannske aðalatriðið hér. Þó að ökubyttum fjölgi kannske ekki hlutfallslega, fjölgar þeim þó, sem þetta afbrot drýgja, þar eð fjöldi ökumanna fer hraðvaxandi. Og því fleiri bílar í umferð, því hættulegri er drykkjuaksturinn eins og gefur að skilja. Hitt er aðalatriðið, að afbrot þetta skuli vera það léttvægt í augum ökumanna, að heilir hópar séu staðnir að því á einum eða tveim dögum. Og eitt er líka víst: drykkjuaksturinn er of mikill á meðan hann yfirleitt hendir nokkurn mann.
Það er sýnilegt, að hér verður að taka ákveðnar á hlutunum framvegis en verið hefur til þess. Skilorðsbundinn dómur má ekki eiga sér stað. Það verður að beita stórsektum, jafnvel ofan á varðhaldsdóm. Tímabil ökuleyfissviftingar verður að lengja. Mönnum verður að skiljast, að á þá, sem þetta afbrot drýgja, sé litið sem óbreytta afbrotamenn og annað ekki, því annað eru þeir ekki. Það er engin ástæða til að taka á þessum mönnum með silkihönzkunum og ökumönnum verður að vera ljóst, að það sé ekki gert. Að auki verður að stórauka opinberan áróður gegn þessu afbroti þar til fólki skilst, hvað við liggur að aka undir áhrifum áfengis.
Blöðin hafa hér til farið með þetta afbrot sem hálfgerð feimnismál og það er ekki von á góðu á meðan svo er. Fólki hefur ekki verið gert ljóst hvernig áfengið verkar á hæfni ökumanns og lítið um áhrif þess yfirleitt. Menn eru almennt ófróðir á þessu sviði. Það þyrfti að gefa út smábækling um þessi atriði, og sem mcnn væru skildir að kynna sér undir ökupróf. Hér er verkefni fyrir Bindindisfélag ökumanna.
Að auki er nauðsynlegt að taka það til endurskoðunar, hvort ekki er þörf á að lækka ,,promille“-ákvæðin og fella burt efri mörkin. Við eigum ekki að vera að dragast með þau frekar en aðrar Norðurlandaþjóðir. Þau eiga ekki rétt á sér frekar en hjá þeim þjóðum sem bezt hafa rannsakað þessi mál.
Nýjustu vísindalegar rannsóknir hafa sýnt að 0,5 mörkin eru of há i mörgum tilfellum, ekki sízt er tekið er tillit til „öryggismarka“ við blóðprufuna, 0,15-0,20 promille. Það er lítill vafi á því, að alkóhólið veldur mörgum fleirum slysum og tjónum en þeim, sem því eru opinberlega kennd, ekki sízt er um er að ræða áfengisáhrif, sem liggja „á mörkunum“. En aðalatriðið er, eins og þegar er á drepið, að viðhorf fólks almennt breytist við þessum málum. Ekki aðeins það, að valdhafinn á hverjum tíma muni ekki þola drykkjuaksturinn, heldur að hann sé í eðli sínu svívirðilegt afbrot, óverjandi, sívaxandi glæpur alveg án tillits til þess, hvað tíðkast í Bandaríkjunum á þessu sviði.

Guðmundur Karl Einarsson

20. október 2010 23:23