Nú rétt í þessu var að ljúka Íslandsmeistarakeppni í Ökuleikni. Keppnin var haldin við Forvarnahúsið í Kringlunni. Töluverð spenna varð í keppninni enda margir reyndir ökumenn á svæðinu. Mesta keppnin var á milli efstu keppenda í kvennariðli. Það var ekki fyrr en í lokabrautinni sem úrslitin réðust. Einungis 19 sekúndur skildu þær tvær efstu að. Reyndar var spennan í akstrinum hjá körlunum mikil og einungis 16 sekúndur sem skildu að eftir aksturinn. En þar sem einnig er prófað í umferðarreglum, varð munurinn meiri í lokin.

Úrslit urðu þessi:

Kvennariðill
1. sæti Birgitta Pálsdóttir  Íslandsmeistari 496 sek
2. sæti Guðný Guðmundsdóttir 515 sek
3. sæti Ragna Fanney Óskarsdóttir 595 sek
Karlariðill
1. sæti Ævar Sigmar Hjartarson Íslandsmeistari 283 sek
2. sæti Garðar Ólafsson 324 sek
3. sæti Daníel Sigurðarson 371 sek

Jafnframt var keppendum boðið að skipta sér í lið, hvort sem var eftir fyrirtækjum eða öðru. Í liðakeppni var tekið meðaltal liðsmanna og urðu niðurstöður þessar:

1. sæti “Hvanneyri” Birgitta  Pálsdóttir
Guðný Guðmundsdóttir
377 sek
2. sæti Olís Kristbjörn Ægisson
Sigurður Bragason
440 sek
3. sæti BÍKR
Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur
Daníel Sigurðarson
Sigurður Rúnar Rúnarsson
Örn Reykdal Ingólfsson
455 sek

Páll H. Halldórsson, formaður Brautarinnar er afar ánægður með hvernig til tókst en 25 keppendur voru skráðir til leiks. Páll segir keppni sem þessa mikilvægan hlekk í baráttunni fyrir auknu umferðaröryggi þar sem hún leggur áherslu á hæfni ökumanna. Þrátt fyrir að um keppni sé að ræða skili æfingin sér út í umferðina.

Ævar Sigmar Hjartarson, nýkrýndur Íslandsmeistari karla í Ökuleikni, var að vonum ánægður með árangurinn. Ævar er reyndur rallýökumaður og raunar fyrrum Íslandsmeistari í rallý á óbreyttum bílum. Hann var ekki í vafa um að æfingin úr rallýinu hefði skilað sér inn í Ökuleiknina. Ökuleiknin hafi þó allt annan blæ yfir sér en rallý en sé ekki síður áskorun.

Ökuleiknin var haldin á vegum Brautarinnar – bindindisfélags ökumanna í samstarfi við Sjóvá, Vífilfell, Heklu og Krónuna.


Kókflaskan fellur. Í þessari þraut átti keppandi að snerta hvítu stöngina án þess að fella kókflöskuna. Það tókst ekki hjá þessum

Guðmundur Karl Einarsson

26. september 2009 17:27