Guðmundur Karl Einarsson

„Mamma, mamma, hvenær kemur pabbi heim?“ Hvernig er hægt að útskýra fyrir 5 ára barni að pabbi muni ekki koma heim á næstunni? Að hann hafi lent í alvarlegu umferðarslysi sem rekja má til ölvunaraksturs og sé heppinn að vera á lífi?

Á síðasta ári slösuðust 1658 í umferðarslysum á Íslandi, þar af 195 alvarlega. 79 einstaklingar slösuðust í umferðarslysum þar sem orsökin er rakin til ölvunaraksturs. Þrír til viðbótar létust vegna ölvunaraksturs (upplýsingar af www.us.is)

Það eru jafn gömul sannindi og ný að áfengi og akstur eiga aldrei að fara saman. Áfengið hefur þann eiginleika að slæva alla starfsemi líkamans og gera hana frábrugðna því sem við þekkjum dags daglega. Það eru einmitt þessi áhrif sem gera það að verkum að við verðum ófær um að stjórna ökutæki. Bara „einn bjór“ hefur þau áhrif að viðbragðið verður lengra, sjónsviðið þrengist og sjón í myrkri verður lakari. Hættan á að gera mistök er því mun meiri og þannig óafsakanlegt að setjast undir stýri við þessar aðstæður. Þetta er ástæðan fyrir slagorðinu „Eftir einn ei aki neinn“

Ökumenn eru settir í óþægilega aðstöðu. Skv. 45. gr umferðarlaga er óheimilt að stjórna ökutæki með áfengi í blóðinu, líka með 0,3 promil eða 0,4 promil. Refsimörkin í dag eru hins vegar ekki fyrr en við 0,5 promil. Það setur ökumenn í þá aðstöðu að fara að meta hvort áfengismagn í blóði er undir eða yfir mörkunum, jafnvel þótt umferðarlögin kveði á um bann við stjórnun ökutækis eftir neyslu áfengis. Það er afar erfitt að reyna að meta magn áfengis í blóði án sérstakra mælitækja, hvað þá að reyna það þegar áfengið er þegar farið að slæva dómgreindina. Þess utan er áfengið farið að hafa áhrif á ökumanninn jafnvel þótt magn þess sé undir 0,5 promil. Því er mun eðlilegra að taka af allan vafa með því að færa refsimörk vegna ölvunaraksturs niður í 0 promil. Með því eru skýr skilaboð send til ökumanna um að áfengi og akstur fari aldrei saman.

Það er óásættanlegt að 79 einstaklingar slasist á einu ári vegna þess að einhver settist undir stýri undir áhrifum áfengis. Áfengisneyslu fylgir mikil ábyrgð sem hvílir á okkur öllum. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir ölvunarakstur. Er vinur þinn að gera sig kláran að aka heim, jafnvel þótt hann hafi fengið sér „öllara“? Ert þú tilbúin(n) að axla þá ábyrgð að hafa ekki stöðvað hann ef hann veldur slysi?

Í desember eru mannfagnaðir ýmiss konar algengir, hvort sem um er að ræða fjölskylduboð, jólahlaðborð eða vinnustaðasamkomur. Oftar en ekki er áfengi haft um hönd. Því bið ég ÞIG um að taka formlega ákvörðun: Ef þú ætlar að neyta áfengis, skildu þá bílinn eftir heima!

Guðmundur Karl Einarsson

13. desember 2008 10:58