Í Kastljósinu á þriðjudag var fjallað um áhrif áfengis á ökumenn. Félagið kom í heimsókn með ökuherminn. Andri Freyr útvarpsmaður var fenginn til þess að aka í herminum edrú, eftir 2 bjóra, eftir 4 bjóra og svo eftir 5. Við mældum viðbragð Andra og var sjáanlegur munur strax eftir 2 bjóra. Viðbragðstíminn lengdist strax um 25% eftir 2 bjóra.
Í gær, miðvikudag, var svo aftur fjallað um málefnið þar sem meðal annars var rætt við fólkið á götunni. Það kom ánægjulega á óvart að mikið hafði verið rætt um þáttinn og er það von félagsins að umfjöllunin hafi áhrif.
Viðbragðstími Andra þegar hann var edrú var 0,8 sekúndur. Það þýðir að frá því hættan varð ljós og þangað til hann steig á bremsuna liðu 0,8 sek. Á 90 km/klst þýða það 20 m. Eftir aðeins tvo bjóra var viðbragðstíminn kominn upp í 1 sek. Það er 25% aukning frá fyrstu mælingu og bætast þar 5 m við vegalengdina. Viðbragðstíminn jókst svo eftir því sem áfengismagní blóði jókst.
Það skiptir gríðarlegu máli að umræða skapist um málefnið og ökumenn taki meðvitaða ákvörðun fyrirfram. Það kom í ljós að dómgreind Andra var fljót að fara og jafnvel eftir fimm rótsterka bjóra á skömmum tíma sagðist hann myndu setjast undir stýri, jafnvel þótt hann ætti þá orðið erfitt með gang. Því skiptir miklu máli að freistingin sé ekki til staðar og því best að skilja bílinn eftir heima.


Andri undir stýri


Í myndveri Sjónvarpsins

Guðmundur Karl Einarsson

15. febrúar 2007 11:12