Siv Friðleifsdóttir ávarpar blaðamannafundinnÍ dag hófst formlega Vímuvarnavika 2006 með kynningarfundi í húsakynnum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Á fundinum voru áherslur og viðburðir vikunnar kynntir.
 
Í tilefni vikunnar undirritaði Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, forvarnasamning til eins árs við Samstarfsráð um forvarnir. Menntamálaráðuneytið og samgönguráðuneytið standa einnig að samningnum. Á fundinum fluttu ávörp auk ráðherra, Árni Einarsson framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum og Íris Eyjólfsdóttir fulltrúi ungmennahóps sem unnið hefur að undirbúnigngi vikunnar.  Vímuvarnavika 2006 hófst sl. sunnudag með umfjöllun í þættinum Kompás á Stöð 2. Þar sýndi umsjónarmaður þáttarins Jóhannes Kristjánsson hversu óhugulega nálæg þessi mál eru. Efni og áherslum vikunnar verður komið á framfæri með ýmsum öðrum hætti. Ungmennafélag Íslands sendi í upphafi vikunnar öllum grunnskólum landsins fræðsluefni sem kallast Flott án fíknar og skólarnir fengu einnig veggspjald sem tengist verkefninu Ég ætla að bíða sem Samstarfsráð um forvarnir setti á laggirnar á síðasta ári, Brautin, bindindisfélag ökumanna verður með opið hús og kynningu á starfi sínu í Forvarnahúsinu fimmtudaginn 19. október kl. 16-19 og sunnudagsmorguninn 22. október kl. 11 stendur Vímulaus æska fyrir athöfn í Vídalínskirkju til þess að minnast þeirra ungmenna sem farist hafa vegna áfengis- og vímuefnaneyslu. Fimmtudaginn 19. október kemur út veglegt fylgirit með Morgunblaðinu helgað vikunni.
 
Vímuvarnavika sem stendur dagana 16. – 20. október nk.er samstarfsverkefni rúmlega tuttugu félagasamtaka og er nú haldin í þriðja sinn. Markmið vikunnar er að:

  • Vekja athygli á hversu mikilvægt það er að börn og unglingar fresti sem lengst að hefja neyslu áfengis.
  • Varpa ljósi á og koma á framfæri upplýsingum um þekkt tengsl upphafsaldurs áfengisneyslu og aukinnar áhættu á ýmsum vanda, s.s. neyslu annarra vímuefna.
  • Vekja athygli á mikilvægi þess að stuðlað sé að því að börn og unglingar neyti ekki áfengis og ábyrgð alls samfélagsins í því skyni.
  • Efla vitund og ásetning samfélagsins um að nauðsynlegt sé að hækka byrjunaraldur áfengisneyslu frá því sem nú er.

Rannsóknir sýna að því yngri sem börn hefja neyslu áfengis og annarra vímuefna þeim mun hættara er við að áfengi og önnur vímuefni valdi þeim erfiðleikum, bæði í bráð og lengd. Rannsóknir sýna að tengsl eru á milli ýmissa neikvæðra hliða áfengis- og vímuefnaneyslu og þess að hefja neyslu áfengis á unga aldri, s.s. að því fyrr sem neysla hefst þeim mun:
 

  1. Meiri líkur eru á vandamálum í æsku, s.s. samskiptavanda við foreldra og fjölskyldu;
  2. Meiri líkur eru á vandamálum tengdum námi og skólagöngu;
  3. Meiri líkur eru á hegðunarvanda;
  4. Meiri líkur eru á neyslu ólöglegra vímuefna;
  5. Meiri líkur eru á misnotkun og mikilli og skaðlegri áfengisneyslu á fullorðinsaldri.

 
Aðstandendur vikunnar segja að á grundvelli þessarar vitneskju sé það eitt brýnasta viðfangsefni forvarna að börn og unglingar neyti hvorki áfengis né annarra vímuefni og að mikilvægt sé að hækka byrjunaraldur áfengisneyslu eins og hægt sé frá því sem nú er.

Vefsíða vikunnar er: www.vvv.is
 

Guðmundur Karl Einarsson

17. október 2006 22:12