Efnt verður til borgarafunda samtímis á sjö stöðum á landinu fimmtudaginn 14. september kl. 17.15 undir yfirskriftinni „Nú segjum við stopp!“ Tilefni fundanna er sú alda umferðarslysa sem skollið hefur á landsmönnum að undanförnu. Borgarafundirnir verða haldnir í Hallgrímskirkju í Reykjavík, Stapanum í Reykjanesbæ, Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi, Menntaskólanum á Egilsstöðum, Akureyrarkirkju, Ísafjarðarkirkju og í Borgarneskirkju.
 
Þegar þetta er ritað hafa 19 manns látið lífið í umferðarslysum á Íslandi það sem af er árinu. Mörg slysanna má rekja til áhættuhegðunar ökumanna. Því er ljóst að þörf er á róttækri hugarfarsbreytingu í umferðinni.

Fundirnir verða allir með sambærilegu yfirbragði. Á þeim verða flutt
stutt erindi fólks sem hefur upplifað það áfall og þá sorg sem fylgir
alvarlegum slysum í umferðinni. Ennfremur munu lögreglu- eða
sjúkraflutningamenn lýsa reynslu sinni af vettvangi auk þess sem
samgönguráðherra mun í Reykjavík flytja þjóðinni aðgerðaráætlun
stjórnvalda gegn umfeðarslysum. Úti á landi munu fulltrúar ráðherra
flytja ræðu hans. Stutt tónlistaratriði verða á milli erinda og öllum
fundunum lýkur með bæn.
 
Í lok fundanna verður opinberuð
heimasíða þar sem landsmenn geta undirritað áheit um bætta hegðun og
ábyrgð í umferðinni. Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra muni ásamt
fulltrúum stjórnmálaflokkanna setja nafn sitt þar undir.

Við viljum hvetja þig til að koma til þess fundar sem er næstur þér og sýna þessu átaki samstöðu.

Að fundinum standa:

Vegagerðin
Umferðarráð
Ríkislögreglustjórinn
Umferðarstofa
Samgönguráðuneytið
Lögreglan í Reykjavík
Landssamband Vörubifreiðastjóra
Félag íslenskra biðfreiðaeigenda
Landssamband íslenskra akstursíþróttafélaga
Landssamtök hjólreiðamanna
Slysavarnafélagið Landsbjörg
Bifhjólassamtök Lýðfveldisins – Sniglar
Ökukennarafélag Íslands
Samband íslenzkra tryggingafélaga
Öryrkjabandalag Íslands
Brautin – bindindisfélag ökumanna

Guðmundur Karl Einarsson

12. september 2006 20:39