Jóhannes Tómasson

Fimmtán mannslíf eru farin forgörðum í umferðarslysum það sem af er árinu. Fólk á öllum aldri sem átti margt ógert í lífinu. Í fjölskyldum þeirra er skarð fyrir skildi og þar ríkir harmur.

Orsakir hvers banaslyss eru ólíkar og iðulega eru þær nokkrar og samverkandi. Þó eru of mikill hraði, þreyta og ölvun meðal algengra orsakavalda og oft slasast menn illa eða deyja af því að öryggisbelti voru ekki notuð. Hegðan okkar sem ökumanna er sem sagt oft ráðandi þáttur og þar má tína ýmislegt til.

Hvernig hegðum við okkur undir stýri? Erum við með hugann við aksturinn eða eitthvað annað?

Við þurfum ekki að vera lengi á ferð í umferðinni til að sjá marga ökumenn sem einbeita sér ekki að akstri. Þeir aka hikandi, fylgjast ekki með umferð í kringum sig og taka jafnvel ekki eftir rauða ljósinu sem blasir við – og þeir aka yfir. Af hverju? Þeir voru í símanum, að leita að símanum, borða, taka til í bílnum, stjórna smábörnum í aftursætinu, snyrta sig eða jafnvel allt þetta í senn. Þá er nú ekki mikil athygli eftir fyrir aksturinn.

Væri nokkuð úr vegi að við íhuguðum örfáar spurningar næst þegar við setjumst inní bíl og ökum af stað. Við getum gert það meðan við spennum beltin. Þarf ég að flýta mér? Gerist nokkuð þótt ég komi þremur mínútum of seint á áfangastað? Þarf ég að svara símanum þó að hann hringi? Þarf ég að aka á mjög bleik-rauðu ljósi þó að ég sjái enga löggu? Þarf ég að æsa mig á bílnum þótt annar ökumaður gangi á ,,rétt minn“ í umferðinni? Þarf ég endilega að æða framúr ,,núna“ á þjóðveginum?

Öruggir bílar, góðir vegir, umferðarmannvirki og umhverfi þeirra ráða vissulega miklu um hvernig okkur reiðir af ef eitthvað bregður útaf í umferðinni. Tvöföldun umferðarmestu þjóðveganna, breiðari vegir og vegaxlir, lengri vegrið og færri einbreiðar brýr eiga líka sinn þátt í að draga úr slysum. Umbætur á því sviði eru langtímaverkefni. Það sem ræður þó mestu er hegðan okkar sem ökumanna. Hana getum við bætt strax. Við þurfum ekki að bíða eftir öðrum til þess. Látum ekki slysaölduna rísa hærra.

Höfundur er upplýsingafulltrúi samgönguráðuneytis.

Morgunblaðið 19. ágúst 2006
Birt með góðfúslegu leyfi höfundar

Guðmundur Karl Einarsson

19. ágúst 2006 04:55