Stefán Máni

Á dögunum gerðist annálaður prýðispiltur sekur um að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Hann skemmdi umferðarmannvirki, stofnaði eigin lífi og annarra í stórhættu og var á endanum handtekinn og færður í fangaklefa. Atburður þessi hafði miklar og neikvæðar afleiðingar fyrir manninn og hans nánasta umhverfi, bæði til lengri og skemmri tíma litið.

Þið vitið um hvern ég er að skrifa og þið þekkið þetta einstaka mál nokkuð vel eftir ítarlega umfjöllun í fjölmiðlum síðustu dagana. En enginn er eyland, allir eru Eyþór. Svona atburðir eiga sér stað nánast daglega.

Það er glæpur að aka undir áhrifum áfengis vegna þess dómgreindarleysis og þeirrar líkamlegu vangetu sem neysla þessa vinsæla vímuefnis hefur í för með sér. En þegar áfengis hefur verið neytt á annað borð skerðist dómgreindin, og þá freistast margir til að aka sjálfir heim, ef ekki af einskærri heimsku, þá til að sanna það fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir séu ekki fullir.

Hvernig er hægt að ætlast til þess að drukkið fólk hafi rænu á að sýna dómgreind þegar skortur á sömu greind er bein afleiðing af neyslu þess löglega vímuefnis sem hinn drukkni er búinn að innbyrða?

Ef drukkið fólk mætti ráða væri ölvunarakstur ekki glæpur. En drukkið fólk setur ekki lögin og framfylgir þeim ekki. Lögin eru sett vegna þess að fólk drekkur, en vegna þess að fólk drekkur fylgir það ekki lögunum.

Þetta er svona Klausa 22!

En að akstri ökutækja slepptum, hvað er það sem drukkin manneskja gera? Hún má drekka eins mikið af áfengi og henni sýnist sólarhringum saman, hlæja, öskra, grenja, rugla og bulla, míga og … en samkvæmt lögum má hún samt ekki vera drukkin á almannafæri, að minnsta kosti ekki í björtu. Hvers vegna ekki? Vegna þess dómgreindarleysis og þeirrar líkamlegu vangetu sem neysla áfengis hefur í för með sér. Drukkið fólk er sem sagt hættulegt sjálfu sér og öðrum, hvort sem það ekur um á bíl eða ekki. Þarna er bara stigsmunur á: Drukkin manneskja á bíl er hættu-legri en drukkin manneskja á gangi.

Drukkið fólk er hættulegt!

Nei, ekki eins hættulegt og ljón með hundaæði, en hættu-legra en fólk almennt er. Áfengi er viðbjóður sem skerðir dómgreind og gerir fólk að fíflum, dónum, glæpamönnum og fórnarlömbum. En vegna þess að áfengið hefur fylgt okkur svo lengi og vegna þess að það er löglegt er fólk orðið blint fyrir þessum augljósu staðreyndum, orðið dofið fyrir þeim neikvæðu áhrifum sem neysla áfengis hefur á sálarlíf neytandans.

Já, já, hlæið bara að mér. En þið þurfið að minnsta kosti ekki að óttast það að hitta mig blindfullan og leiðinlegan einhvers staðar úti í bæ. Ekki lengur. Ég er nefnilega alveg sáttur við mig eins og ég er. Mér líður ekki það illa að ég þurfi að hella í mig eitri og magna upp vanlíðanina þangað til ég held að ég sé ofsalega kátur og skemmtilegur.

Það er búið að hamra mikið á skaðsemi tóbaks, enda er neysla tóbaks hættuleg. Fólk fær hina ýmsu sjúkdóma af reykingum og sumir þeirra er banvænir. En í mínum huga er tóbak ekkert sérstaklega hættulegt. Ég reyki ekki sjálfur, en mig hefur oft langað að byrja. En ég er líka feginn því að þurfa ekki að hætta.

Það hefur enginn misst vitið eftir að hafa reykt tóbak. Enginn hefur keyrt á mann vegna áhrifa tóbaks. Enginn hefur lamið einhvern í tóbaksvímu. Enginn hefur myrt neinn vegna ofreykinga. Og svo framvegis.

Tóbak er vont fyrir líkamann, alveg eins og nammi og grillmatur og vinnustaðakaffi. Eftir alla fræðsluna um skaðsemi þess veldur það kannski samviskubiti, en það skemmir ekki sálina eins og áfengið.

Manneskja með sígarettu skelfir ekki börn, en það gerir sú sem er undir áhrifum áfengis.

Stefán Máni, rithöfundur.

Morgunblaðið, 19. mai 2006
Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Guðmundur Karl Einarsson

19. maí 2006 04:54