Á stjórnarfundi þann 9. mars síðastliðinn samþykkti stjórn BFÖ eftirfarandi ályktun. Hún hefur verið send borgarfulltrúum í Reykjavík:

Stjórn Bindindisfélags ökumanna (BFÖ) sendir borgarfulltrúum og forráðamönnum Reykjavíkurborgar árnaðaróskir í tilefni niðurstöðu heildarúttektar á forvarnastarfi Reykjavíkurborgar á árunum 1997-2004. Samkvæmt úttektinni hefur forvarnarstarf síðustu ára skilað verulegum árangri. Þannig hefur áfengisneysla meðal nemenda í 10. bekk grunnskóla minnkað úr 44% árið 1997 í 26% árið 2004, reykingar dregist saman úr 23% árið 1998 í 13% árið 2004 og hassneysla minnkað úr 21% árið 1998 í 11% árið 2004.

Stjórn BFÖ hvetur Reykjavíkurborg til að halda vöku sinni og fylgja markvisst eftir hinum góða árangri og nýta sóknarfæri til enn betri árangurs.

Stjórn BFÖ vekur athygli borgarfulltrúa á að fyrir Alþingi liggur þingmannafrumvarp um lækkun aldursmarka til áfengiskaupa úr 20 árum í 18 ár (þskj. 147 – 147. mál) og einnig þingmannafrumvarp um afnám einkaleyfis ÁTVR til smásölu á áfengi (þskj. 241 – 252. mál). Hér er verið að leggja til veigamiklar breytingar á áfengismálastefnu þjóðarinnar sem líklegar eru til að stuðla að lægri upphafsaldri áfengisneyslu og leiða til aukinnar neyslu, sem gerir forvarnastarf meðal ungmenna erfiðara.

Stjórn BFÖ hefur áhyggjur af því að ákvarðanir sem þessar séu ekki nægjanlega vel undirbúnar og bendir í því sambandi á misvísandi rökstuðning í greinargerð með frumvörpunum og þess að þar er í engu getið um hugsanleg neikvæð áhrif breytinganna.

Stjórn Bindindisfélags ökumanna hvetur borgarfulltrúa til að kynna sér þessi frumvörp og beita sér gegn þeim á pólitískum vettvangi telji þeir að samþykkt þeirra kunni að ógna þeim árangri sem náðst hefur í forvarnarstarfi Reykjavíkurborgar meðal unglinga.

Reykjavík, 9. mars 2005

Hér má finna greinargerðina sem vísað er í.
Hún var tekin saman af Árna Einarssyni fyrir Samstarfsráð um forvarnir.

Guðmundur Karl Einarsson

31. mars 2005 15:07