Á 200. fundi Umferðarráðs, 28. október, voru samþykktar ályktanir þar sem hvatt var til notkunar bílbelta, eins og lög mæla fyrir um, og varað við notkun farsíma í akstri. Umferðarráð lýsir þungum áhyggjum vegna þeirra mörgu alvarlegu slysa sem orðið hafa á undanförnum árum þar sem ökumenn og farþegar hafa ekki verið í bílbelti. Samkvæmt upplýsingum frá rannsóknarnefnd umferðarslysa hefðu 37 manns, sem létust í umferðarslysum frá árinu 1998 til októberloka í ár, átt góða möguleika á að vera á lífi í dag, hefðu þeir notað bílbelti. Fjöldi fólks hefur hlotið ævarandi örkuml af sömu ástæðum. Umferðarráð minnir á að nú eru liðin 23 ár síðan fyrstu lög um notkun bílbelta voru sett hér á landi. Vilji löggjafans er skýr. Hver sá sem situr í sæti bifreiðar sem búið er öryggisbelti skal nota það, óháð því hvort bifreiðin telst fólksbifreið, hópbifreið, vöru- eða sendibifreið.
Umferðarráð beinir þeirri eindregnu áskorun til allra þeirra sem setjast upp í bifreið að nota undantekningarlaust þann mikilsverða öryggisbúnað sem bílbeltin ótvírætt eru.
Jafnframt beinir Umferðarráð þeim tilmælum til lögreglu að eftirlit með notkun öryggisbúnaðar eins og bílbelta verði verulega hert frá því sem nú er, og aukin löggæsla þar að lútandi nái meðal annars til hópbifreiða.

Umferðarráð vekur athygli á að farsímanotkun ökumanna án handfrjáls búnaðar virðist stöðugt færast í vöxt. Þessi óheillavænlega þróun hefur augljós áhrif á aksturslag og grundvallaratriði eins og til dæmis notkun stefnuljósa og er engan veginn í samræmi við skýr fyrirmæli umferðarlaga sem banna ökumönnum að tala í farsíma í akstri án þess að nota handfrjálsan búnað. Umferðarráð beinir þeim eindregnu tilmælum til þeirra ökumanna sem virða ekki þessi ákvæði og gera nú bragarbót án tafar. Þá hvetur Umferðarráð lögreglu um allt land til þess að herða eftirlit með farsímanotkun ökumanna. Núverandi ástand í þessum efnum er að mati Umferðarráðs óviðunandi og stórhættulegt og brýnt að á því verði tekið af festu.

Guðmundur Karl Einarsson

13. nóvember 2004 19:08