Innan við fimmtíu kílómetrar af hringveginum eru nú án bundins slitlags eða rúmlega 3% af öllum hringnum, sem er tæpir fjórtán hundruð kílómetrar (miðað við fjarðaleiðina fyrir austan). Bundið slitlag er komið á alla leiðina frá Reykjavík og norður að Mývatni og frá Reykjavík austur að Höfn í Hornafirði.

Frá Höfn til Egilsstaða eru nokkrir stuttir malarkaflar (4-8 km hver) um Almannaskarð, um Þvottárskriður, í Hamarsfirði, í Berufirði, fyrir Vattarnes og innarlega í sunnanverðum Reyðarfirði. Þegar jarðgöngin undir Almannaskarð og göngin milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar verða tekin í notkun á næsta ári fækkar þessum köflum um helming.

Á leiðinni milli Egilsstaða og Mývatns eru aðeins tveir vegakaflar með gamla laginu, upp úr Jökuldal og norðarlega á Möðrudalsöræfum. Framkvæmdir standa yfir á síðarnefnda kaflanum og verður nýr vegur þar opnaður næsta sumar.

Guðmundur Karl Einarsson

10. ágúst 2004 11:49