Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (World Health Organization – WHO) hefur tileinkað árið 2004 umferðaröryggismálum. Af því tilefni var fyrr á þessu ári stofnaður samstarfshópur um 20 aðila sem allir koma að umferðaröryggismálum með einum eða öðrum hætti hér á landi og vann þessi hópur m.a. saman þann 7. apríl og aftur nú fyrir aðra stærstu ferðamannahelgi ársins. BFÖ er aðili að þessum hópi og tók þátt í átakinu í dag. Ekið var í lest í gegnum bæinn frá Háskóla Íslands upp að rauðavatni með tvo tjónabíla ásamt viðbragðsbílum og fleirum. Veltibíllinn var með í för. Við Rauðavatn voru saman komnir 24 svartklæddir einstaklingar, en þeir táknuðu þá 24 sem látast í umferðinni að meðaltali á hverju ári.

Samstarfshópurinn vill með þessum hætti vekja athygli á að banaslys eru of mörg í umferðinni. Nú fer sá tími árs í hönd þegar umferð er hvað mest á vegum landsins og því ástæða til að minna ökumenn á þá ábyrgð sem felst í því að stjórna ökutæki í umferðinni. Hópurinn hefur undir höndum skýrslu frá lögreglunni á Sauðárkróki þar sem umferðareftirlit var hert til muna tímabundið og árangur þess er borinn saman við árin á undan. Í skýrslunni segir að slysum og eignatjónum hafi fækkað stórlega í þeim tilfellum sem lögreglan var kvödd til. Jafnframt munu verða kynntar hvar á vegakerfinu flest banaslys og önnur alvarleg slys hafa orðið á undanförnum árum.

Hér má sjá fleiri myndir frá því í dag

Guðmundur Karl Einarsson

1. júlí 2004 18:57