Um 25,2% Íslendinga á aldrinum 15-89 ára, eða alls um 56 þúsund manns, segjast ekki neyta áfengis, samkvæmt könnun sem IMG Gallup gerði í maí fyrir Samstarfsráð um forvarnir. Af þessum 25,2% fullorðinna Íslendinga höfðu 4,6% farið í áfengismeðferð. Konur eru bindindissamari en karlar (27,4% samanborið við 22,9%) og hlutfall bindindisfólks er hæst í yngstu og elstu aldurshópunum. Bindindismenn eru hlutfallslega heldur fleiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess.

Um 6,5% Íslendinga á þessum aldri, eða rúmlega 14 þúsund manns, segjast hafa farið í áfengismeðferð, um 4,6% neyta ekki áfengis nú en 1,9% neyta áfengis. Mun fleiri karlar en konur hafa farið í meðferð (9,1% samanborið við 3,7%). Í hliðstæðri könnun sem gerð var fyrir rúmum áratug var hlutfall þeirra sem höfðu farið í áfengismeðferð mun lægra eða um 2,6%.

Könnunin var gerð 5.-18. maí 2004. Svör fengust frá 868 körlum og konum á aldrinum 15-89 ára.

Samstarfsráð um forvarnir er nýr samstarfsvettvangur sex bindindissamtaka. Þau eru: Barnahreyfing IOGT, Bindindisfélag ökumanna, Bindindissamtökin IOGT á Íslandi, Íslenskir ungtemplarar, Samvinnunefnd skólamanna um bindindisfræðslu og Ungmennahreyfing IOGT.

Guðmundur Karl Einarsson

12. júní 2004 17:33