Í dag fór fram Íslandsmeistarakeppni í Ökuleikni á rútum og trukkum á svæði Eimskips við Sundahöfn í Reykjavík. Fyrst var keppt á stórri rútu frá Austfjarðaleið og lítilli rútu frá SBA, hvort tveggja Benz rútur frá Öskju. Að þeirri keppni lokinni fór fram keppni þar sem keppt var annars vegar á Mercedes Benz Actros frá Ölgerðinni og Mercedes Benz Citan frá Öskju. 22 keppendur tóku þátt í keppnum dagsins, 9 í rútukeppninni og 13 í trukkakeppninni. Sumir keppendur höfðu áður tekið þátt og jafnvel landað Íslandsmeistaratitli en aðrir voru að taka þátt í fyrsta skipti.

Ökuleikni fer þannig fram að keppendur aka í gegnum þrautir á tíma. Fyrir hverja villu sem gerð er í brautinni bætast 20 sekúndur við tímann. Hluti af keppninni eru einnig umferðarspurningar og fyrir hverja villu í þeim bætast 5 sekúndur við tímann. Sá sem hefur besta tímann sigrar.

Í rútukeppninni var það Björgvin Gunnarsson sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum með 376 sekúndur. Þá varð lið Björgvins, Þrír harðir, hlutskarpast í liðakeppninni en liðinu eru einnig Sigurður Sigurbjörnsson (sem lenti í 2. sæti) og Ágúst Harðarson. Í trukkakeppninni varð Sigurður Sigurbjörnsson Íslandsmeistari með 262 sekúndur. Þá varð lið Eimskips efst í liðakeppninni en liðið skipuðu þeir Patrekur Stefánsson (sem lenti í 3. sæti), Kristinn Eyjólfsson, Haukur Þór Grímsson og Gunnar Ingvi Rúnarsson.

Það er Brautin – bindindisfélag ökumanna sem heldur keppnina í samstarfi við Eimskip, Austfjarðaleið, Öskju, SBA Norðurleið, Ölgerðina og Sjóvá. Á morgun, sunnudaginn 1. október, verður svo keppni í Ökuleikni á fólksbifreiðum og hefst hún kl. 13:00 en mæting keppenda er kl. 12:30.

Ökuleikni 2017. Úrslit í rútum og trukkum.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr keppninni en fleiri myndir má sjá á Flickr síðu félagsins.

Guðmundur Karl Einarsson

30. september 2017 17:09